Handbolti

„Allt um þjóð­há­tíðina í Kristianstad“

Valur Páll Eiríksson skrifar
Það mætti halda að aðeins ein þjóð sé að fara að spila í Kristianstad næstu daga. Allt snýst um komu íslenska landsliðsins og stuðningsmanna þess.
Það mætti halda að aðeins ein þjóð sé að fara að spila í Kristianstad næstu daga. Allt snýst um komu íslenska landsliðsins og stuðningsmanna þess. Samsett/Vísir

Strákarnir okkar í handboltalandsliðinu mættu í dag til Kristianstad og mæta Ítölum í fyrsta leik á EM á föstudaginn kemur. Það mætti halda að Ísland sé eina liðið sem sé að fara að spila í sænska bænum.

Valur Páll Eiríksson skrifar frá Kristianstad

Íslenski fjölmiðlahópurinn ferðaðist saman til Kristianstad í dag og fann þar bæði ungverska og ítalska landsliðið á Kastrup-flugvelli í Kaupmannahöfn. Þegar þetta er skrifað bíða blaðamenn eftir íslenska liðinu sem er væntanlegt í keppnishöllina innan tíðar.

Ungverjar hafa nýlokið æfingu, Ítalir tóku við og æfa nú í keppnishöllinni. Stórskyttan Laszlo Nagy er á næsta borði og nagar neglurnar. Hann er hluti af teyminu í kringum ungverska liðið.

Vel er tekið á móti Íslendingum hér í borg enda lögðu borgaryfirvöld í Kristianstad mikla áherslu á að fá Íslendinga aftur hingað eftir að þeir tóku yfir borgina á HM 2023. Þá kláraðist hver einasti dropi af bjór í bænum og heimamenn undirbúa nú aðra íslenska þjóðhátíð.

Staðarmiðillinn, Kristianstadsbladet, undirbjó heilt dagblað tileinkað íslenska liðinu og allt blaðið er á íslensku. Þar má finna ávarp frá skipuleggjendum, viðtal við Tinnu Mark Antonsdóttur, íbúa í Kristianstad og sérstakan tengilið íslenskra stuðningsmanna, viðtal við eiginmann hennar, fyrrum landsliðsmanninn Ólaf Andrés Guðmundsson, greiningu sænskra sérfræðinga á íslenska liðinu og margt fleira.

Það er sannarlega allt gert í þessum 40 þúsund manna bæ til að taka vel á móti þeim tvö til þrjú þúsund Íslendingum sem munu taka yfir bæinn frá og með morgundeginum.

Teymi Sýnar mun fylgja landsliðinu eftir hvert fótmál fram að móti og á meðan því stendur. Rætt verður við landsliðsmenn í Sportpakkanum á Sýn í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×