Skoðun

Fleiprað um finnska leið

Rúnar Sigþórsson skrifar

Nýr mennta- og barnamálaráðherra fór mikinn í Kastljósi RÚV í 13. janúar, meðal annars um finnsku leiðina í lestrarkennslu. Þrennt stendur upp úr því sem ráðherrann hélt fram um hana (það sem er í gæsalöppum er orðrétt):

  1. Að finnskir nemendur hefðu „skrapað botninn“ og skorað „hvað lélegast í PISA-könnunum“ í lesskilningi en frammistaða þeirra hefði verið rifin upp með verkefni sem væri fyrirmynd að íslenska verkefninu Kveikjum neistann.
  2. Að verkefnið Kveikjum neistann væri „liður í“ finnsku leiðinni í þróun menntakerfa.
  3. Að lestrarkennsla í finnskum skólum (samkvæmt finnsku leiðinni) byggðist „fyrst og síðast á markvissri hljóðaaðferð“.

Mér þóttu þessar staðhæfingar allar í meira lagi grunsamlegar þannig að ég gerði það sem ráðherrann hefði betur gert áður en hún fór í viðtalið, aflaði mér eftirfarandi upplýsinga á fljótlegan og auðveldan hátt:

Finnskir nemendur hafa aldrei skrapað botninn í lesskilningi á PISA-prófunum. Þvert á móti hafa þeir verið á toppnum allt frá því að þau voru tekin upp árið 2000. Árangurinn var nokkurn veginn óbreyttur frá 2000–2006 (546–547) stig en hefur síðan dalað og var kominn niður í 490 stig 2022 (heimild: Finland’s PISA Scores (Reading).https://worldscorecard.com/scorecards/finnish-scorecard/pisa-scores-reading).

Um framangreint má einnig lesa í skýrslum OECD um niðurstöður prófanna 2006 og 2022.

Hugtakið finnska leiðin er sótt til skrifa finnska menntunarfræðingsins Pasi Sahlberg en hann skrifaði þekkta bók sem hann kallaði Finnish Lessons: What Can the World Learn from Educational Change in Finland? Fyrsta útgáfa bókarinnar kom útárið 2011 og nýjar útgáfur 2014 og 2021. Sahlberg hefur einnig skrifað fjölda greina um finnskt skólakerfi og menntaumbætur. Til að auka mér leti lagði ég eftirfarandi beiðni fyrir gervigreindar­forritið M365 Copilot: Kannaðu fyrir mig skrif Pasi Sahlberg um finnska skólakerfið og finndu hvað hann segir um aðferðir við lestrarkennslu. Svarið kemur hér á eftir nokkurn veginn orðrétt frá forritinu (málfar er þó snyrt á fáeinum stöðum). Tilvísanir forritsins í heimildir fylgja óbreyttar með í hornklofum:

Eftir yfirferð á skrifum Sahlbergs og umfjöllun um Finnish Lessons (2011, 2014, 2021) og nýrra efni má draga eftirfarandi ályktun:

1. Sahlberg fjallar ekki beint eða tæmandi um ákveðna „lestrarkennsluaðferð“ en í þeim heimildum sem liggja fyrir ræðir Sahlberg um:

  • jafnrétti í námi,
  • fagmennsku og sjálfstæði kennara,
  • heildræna sýn á skólastarf,
  • leik og þroska barna,
  • traust í stað prófamiðunar,
  • hæfni kennara, gæði kennslu og kennaramenntun.

Hann ræðir hins vegar ekki um aðferðir í lestrarkennslu eins og hljóðaaðferð, heildaraðferð eða blandaðar aðferðir. Engin af heimildunum um Finnish Lessons eða umfjöllun um verk Sahlbergs tilgreinir sérstaka lestrarkennsluaðferð sem hann mælir með eða lýsir. [link.springer.com]

2. Sahlberg bendir þó óbeint á meginviðmið sem hafa áhrif á lestrarkennslu og þótt hann lýsi ekki tiltekinni aðferð má lesa út frá skrifum hans að finnska kerfið byggi á ákveðnum grunnstoðum sem móta hvernig lestrarkennsla fer fram. Þær helstu eru:

  • a) „Less is more“ – gæði umfram magn: Sahlberg útskýrir að finnskt skólastarf hvíli á einföldu og rólegu vinnuumhverfi þar sem kennarar hafa svigrúm til að nota þær aðferðir sem þeir telja henta hverjum nemenda. [link.springer.com]
  • b) Faglegt sjálfstæði kennara: Kennarar velja sjálfir kennsluaðferðir – þar með talið við lestrarkennslu. Það er hluti af menningu trausts í finnska skólakerfinu. [link.springer.com]
  • c) Mikið vægi leiks, sérstaklega í yngri bekkjum. Í nýrri erindum Sahlbergs er lögð mikil áhersla á leik sem grunn að þroska, þar með talið málþroska, sem er forsenda lestrarnáms. [blog.kindiedays.com]
  • d) Jafnræði og snemmtækur stuðningur: Sérhæfður stuðningur er veittur þegar börn eiga í erfiðleikum – en án mikils prófastress. Þetta snertir einnig lestrarnám.
  • [link.springer.com]

3. Sahlberg fjallar um læsi (e. literacy) en ekki sérstakar lestrarkennsluaðferðir: Í umfjöllun um Finnish Lessons 3.0 kemur fram að:

  • Lestur ungmenna hefur almennt dregist saman og lestraránægja þeirra hefur dvínað.
  • Það að horfa aðeins á lestrarpróf gefi of þrönga mynd af lestrarfærni. [cora.ucc.ie]

Sahlberg tengir þetta hins vegar ekki við ákveðna kennsluaðferð – heldur við breytingar í samfélagi, menningu og skólaumhverfi.

Niðurstaða: Pasi Sahlberg skrifar ekki með beinum hætti um tilteknar aðferðir í lestrarkennslu (t.d. hljóðaaðferð vs. heildaraðferð). Hann

  • talar um heildræna nálgun í kennslu,
  • treystir kennurum til að velja aðferðir,
  • undirstrikar að leikur og jafnræði skipti mestu,
  • leggur áherslu á að læsi sé hluti af víðara menntunarumhverfi en ekki tæknileg „aðferð“.

Að lokum

Það er ærin ástæða til ráðast í að þróa læsismenntun í íslenskum grunnskólum. Við vitum töluvert um hvernig hún á sér stað á yngsta stigi grunnskóla og flest bendir raunar til að hún sé þar í bærilegu lagi. Aftur á móti vitum við miklu minna um hvernig læsiskennsla og -nám fer fram á mið-og unglingastigi en það sem við þó vitum bendir til að einmitt þar þurfi að ráðast í markvisst þróunarstarf, meðal annars til að efla lesskilning og ályktunarhæfni, sem þarf til að takast á við krefjandi texta í mismunandi námsgreinum. Til þess þarf þó hvorki að kveikja neista né tendra ófriðarbál heldur leita leiða sem fela í sér heildræna nálgun í kennslu, traust til kennara til að velja og þróa aðferðir í samráði við ráðgjafa, viðleitni til að auka bóklestur og lestraránægju allra nemenda – ekki bara þeirra sem hafa íslensku að móðurmáli – og áherslu á að læsi sé félagsmenningarlegt fyrirbæri og hluti af víðara menntunarumhverfi en ekki tæknileg „aðferð“ sem þar sem hægt er að smætta árangurinn niður í mælanlegar eindir.

Höfundur er fyrrverandi prófessor við kennaradeild Háskólans á Akureyri.




Skoðun

Sjá meira


×