Erlent

Yfir­völd sögð rukka háar fjár­hæðir fyrir af­hendingu líka mót­mælenda

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Mótmælin hafa staðið yfir frá því fyrir áramót og um 2.400 látist.
Mótmælin hafa staðið yfir frá því fyrir áramót og um 2.400 látist. Getty/Dan Kitwood

Yfirvöld í Íran eru sögð hafa heimtað háar fjárhæðir af fjölskyldum einstaklinga sem látist hafa í mótmælum í landinu fyrir afhendingu líkamsleifa þeirra.

BBC hefur eftir fjölda heimildarmanna að öryggisyfirvöld neiti að afhenda fjölskyldum lík sem hvíla í líkhúsum og á sjúkrahúsum, nema gegn greiðslu. 

Ein fjölskylda í borginni Rasht segir að þeim hafi verið tjáð að þau fengju ekki lík ástvinar nema gegn greiðslu rúmra 600 þúsund króna. Önnur fjölskylda í Tehran var rukkuð um nærri 900 þúsund krónur.

Þess má geta að samkvæmt BBC nema mánaðarlaun verkamanns í Íran um það bil 13 þúsund krónum.

Starfsfólk sjúkrahúsa er sagt hafa reynt að setja sig í samband við fjölskyldur látnu til að vara þær við og hvetja þær til að sækja líkamsleifar áður en öryggisyfirvöld láta sig málið varða.

Ættingi konu í Íran, sem sjálfur er búsettur í Lundúnum, sagði konuna aðeins hafa frétt af dauða eiginmanns síns þegar starfsfólk sjúkrahúss hafði samband við hana og ráðlagði henni að koma að sækja líkið áður en öryggissveitir kæmu og rukkuðu hana fyrir.

Konan er sögð hafa tekið börnin sín tvö með sér á spítalann, þar sem líki eiginmanns hennar var komið fyrir á pallinum aftan á bifreið. Líkinu var síðan ekið heim, í sjö klukkustundir, þar sem konan grét yfir manni sínum aftan á pallinum á meðan börnin sátu í framsætinu.

BBC segist einnig hafa heimildir fyrir því að nokkrar fjölskyldur hafi brotist inn í líkhús til að ná í líkamsleifar ástvina.

Erlendir miðlar fá ekki að flytja fregnir frá Íran og þá hafa stjórnvöld takmarkað verulega alla möguleika á samskiptum, hvort sem um er að ræða um síma eða internetið. Þannig hefur reynst erfitt að fá skýra mynd af stöðu mála í landinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×