Handbolti

Skýrsla Henrys: Slátur­tíð í Kristianstad

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Bjarki Már Elísson fagnaði öllu með stæl í kvöld.
Bjarki Már Elísson fagnaði öllu með stæl í kvöld. vísir/epa

Ísland er komið á blað á EM eftir að hafa labbað mjög harkalega yfir sprækt ítalskt lið. Eftir erfiðar upphafsmínútur gáfu okkar menn í og unnu að lokum risasigur, 39-26.

Fyrir leik var talað af virðingu um ítalska liðið sem hefur verið á hraðri uppleið og verið að ná áhugaverðum úrslitum. Það sást strax að okkar menn tóku leikinn mjög alvarlega og ætluðu svo sannarlega ekki að gefa Ítölum blóð á tennurnar. Þeir vildu drepa allar vonir þeirra sem fyrst.

Leikurinn var tekinn alvarlega og hann var afgreiddur fagmannlega. Algjör slátrun og draumabyrjun hjá okkar mönnum.

Janus Daði var maður leiksins og um leið og hann kom af bekknum kom krafturinn sem vantaði svo hægt væri að skilja ítalska liðið eftir. Hann lék svo sannarlega við hvurn sinn fingur og það á báðum endum vallarins því hann var líka frábær í vörninni.

Þessi framliggjandi vörn Ítalana var veisla fyrir Janus og einnig fyrir Gísli Þorgeir. Þeir skildu andstæðingana eftir og Ísland fékk á köflum ekkert nema dauðafæri.

Snorri Steinn var mættur með lausnir og okkar menn leystu verkefnin af krafti. Það var skemmtilegt að sjá Snorra svara fjögurra manna útilínu Ítalana með því að gera slíkt hið sama. Kannski nýtt vopn?

Það fengu allir að spila og þessi leikur var hin fullkomna byrjun á mótinu. Þessi sigur segir okkur ekkert um hversu langt liðið er komið en hann vissulega gefur góð fyrirheit. Við fáum svo svör við stóru spurningunum gegn Ungverjalandi.

Þetta var frábært föstudagskvöld þar sem íslenska liðið fór ekki bara á kostum heldur gerðu íslenskir stuðningsmenn það líka. Svakaleg stemning og gott teiti.

Megi vera framhald á þessu teiti næstu vikurnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×