Handbolti

Vikor Gísli rændur á tölfræðiblaðinu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Viktor Gísli Hallgrímsson fékk bara tvö vítaskot varin hjá tölfræðingum Evrópumótsins í kvöld en varði þrjú.
Viktor Gísli Hallgrímsson fékk bara tvö vítaskot varin hjá tölfræðingum Evrópumótsins í kvöld en varði þrjú. Getty/Sanjin Strukic

Íslenski markvörðurinn Viktor Gísli Hallgrímsson var í miklu stuði á vítapunktinum í fyrsta leik Íslands á Evrópumótinu í handbolta og sá til þess að Ítalir nýttu aðeins þrjú af sjö vítaköstum sínum í leiknum.

Viktor varði þrjú víti í leiknum og auk þess skutu Ítalirnir yfir úr einu í viðbót þar sem vítaskyttan fann enga leið fram hjá íslenska markverðinum.

Viktor var hins vegar rændur í tölfræðiblaði mótshaldara. Það voru aðeins skráð tvö víti varin hjá Viktori í leiknum, sem passar auðvitað ekki. Það sáu allir sem horfðu á leikinn.

Fyrsta víti Ítala, sem Mikael Helmersson tók og Viktor varði, var aldrei skráð. Það var aftur á móti annað víti skráð hinum megin á vellinum á sama tíma.

Tölfræðingar mótsins gerðu því vont enn verra með því að skrá vítaklikkið á íslenska leikmanninn Janus Daða Smárason og varða skotið á Domenico Ebner í marki Ítala.

EHF tölfræðin

Ebner fékk því víti varið á tölfræðiblaðinu sem hann varði aldrei. Skotnýting Janusar Daða var líka átta skot úr tíu skotum en ekki átta mörk úr níu skotum sem hún átti að vera.

Þetta eru svo sláandi mistök að það hlýtur að vera hægt að fá þetta leiðrétt enda algjört bull.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×