Handbolti

Ís­lendingar ættu frekar að vera hræddir

Sindri Sverrisson skrifar
Adrian Sipos er ekkert lamb að leika sér við. Hér fagnar hann í sigrinum gegn Ítalíu í gær.
Adrian Sipos er ekkert lamb að leika sér við. Hér fagnar hann í sigrinum gegn Ítalíu í gær. EPA/Johan Nilsson

Leikmenn ungverska landsliðsins eru núna komnir með hugann við stórleikinn við Ísland í Kristianstad annað kvöld, þar sem segja má að baráttan um sæti í undanúrslitum EM í handbolta hefjist formlega.

Liðin eru örugg um sæti í milliriðli og taka þangað með sér stigin úr leiknum annað kvöld. Sem sagt tvö, eitt eða engin stig.

Ítalía og Pólland reyndust ekki mikil fyrirstaða fyrir þau, þó að sigrar Íslands hafi verið stærri og meira sannfærandi, og það var svo sem vitað fyrir fram að slagur Íslands og Ungverjalands yrði fyrsta skrefið í átt að undanúrslitum. Þangað ætla Ungverjar að komast, rétt eins og Íslendingar, og þeim hefur gengið vel gegn Íslandi undanfarin ár.

Ísland hafi mætt með mjög sterkan hóp

Ungverjar unnu 30-28 sigur í sömu höll og spilað verður nú, í Kristianstad, þegar liðin mættust á HM 2023. Á EM í Þýskalandi fyrir tveimur árum vann Ungverjaland átta marka sigur, 33-25, en Ísland vann 31-30 þegar liðin mættust í Búdapest á EM 2022.

„Þeir sem hafa séð íslenska liðið í fyrstu tveimur leikjunum eru sammála mér um að þeir mættu hingað með mjög sterkan hóp. Þeir eru sigurstranglegri fyrir fram en það er engin ástæða til að óttast það,“ sagði Bence Imre, hægri hornamaður Ungverja og Kiel.

Ísland og Ungverjaland hafa marga hildi háð síðustu ár. Ómar Ingi Magnússon og félagar fögnuðu sigri þegar liðin mættust á EM 2022, í Búdapest.EPA/Tamas Kovacs

„Ég held að ungverska og íslenska liðið séu áþekk að getu. Eitt er alveg á hreinu og það er að við ættum ekki að dvelja í fortíðinni. Sigurinn í München fyrir tveimur árum er dásamleg minning en hefur enga þýðingu á þriðjudaginn. Þeir ættu frekar að vera hræddir en við. Ef við vinnum tökum við risaskref í átt að því að láta draum okkar rætast. En við leikmennirnir verðum að vera mun, mun nákvæmari inni á vellinum,“ sagði Imre við Magyar Nemzet.

Enn meiri orka fari í að mæta Íslendingum

Línutröllið Adrián Sipos, sem spilar með Melsungen í Þýskalandi, er tilbúinn fyrir harðan slag við Íslendinga.

„Þessir tveir leikir hafa tekið sinn toll af okkur en það er bara eðlilegt á Evrópumóti, þar sem spilað er annan hvern dag og tíminn í endurheimt er mjög takmarkaður.

Ísland er líklegast til að vinna riðilinn. Þeir eru meira í að sækja „einn á einn“ en Ítalir eða nokkur önnur þjóð, því þeirra taktík gengur út á það, svo það krefst enn meiri orku frá okkur en fyrstu tveir leikirnir. En þetta er ekki fyrsta stórmótið okkar og ég geri þetta í hverri viku í Þýskalandi, svo ég held enn að það sé þannig að ef hausinn verður í lagi hjá okkur þá mun líkaminn höndla þetta,“ sagði Sipos.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×