Handbolti

„Lífs­hættu­legt“ gólf losnaði í einni af EM-höllunum

Sindri Sverrisson skrifar
NRK birti þetta skjáskot sem sýnir hvernig dúkurinn losnaði undan fótum hins tékkneska Jonas Josef sem slapp þó við meiðsli.
NRK birti þetta skjáskot sem sýnir hvernig dúkurinn losnaði undan fótum hins tékkneska Jonas Josef sem slapp þó við meiðsli. Skjáskot/Viaplay í Noregi

Mildi þykir að ekki færi verr þegar gólfdúkurinn losnaði undan fótum Tékkans Jonas Josef í leik gegn Noregi á EM í handbolta um helgina.

Norskir fjölmiðlar fjalla um málið og vitna í leikmenn norska liðsins sem segja að atvikið hefði getað valdið mjög alvarlegum meiðslum.

Josef var með boltann í sókn í seinni hálfleik, í höllinni í Bærum rétt utan við Osló, þegar hann rann skyndilega til. EM fer sem kunnugt er fram í Noregi, Danmörku og Svíþjóð, þar sem riðill Íslands er spilaður.

„Þetta gerðist bara í miðri baráttu. Það er lífshættulegt ef maður misstígur sig við svona og lendir illa. Þá getur hnéð farið, krossbandið eða ökklar. Það er skrýtið að þetta hafi ekki verið lagað í einu leikhléi. Sem betur fer slapp þetta til,“ sagði Tobias Gröndahl, landsliðsmaður Noregs, við NRK.

Aðspurður hvað honum þætti um að svona lagað gerðist á stórmóti svaraði hann:

„Það getur auðvitað gerst, það er mikill kraftur í fótum leikmannanna. Þegar það er mikill kraftur getur verið erfitt fyrir límbandið að haldast á gólfinu. Það þarf að tví- og þríathuga það svo leikmennirnir meiði sig ekki,“ sagði Gröndahl.

Sander Sagosen liðsfélagi hans kippti sér ekki mikið upp við atvikið. „Það er ekki alltaf sem hlutirnir ganga samkvæmt áætlun. Ég vona að þetta haldist sem best en svona óhöpp geta orðið bæði hjá þeim [skipuleggjendum] og okkur,“ sagði Sagosen við NRK.

Samkvæmt samskiptastjóra EHF, Handknattleikssambands Evrópu, verður gólfið skoðað gaumgæfilega og gengið úr skugga um að svona lagað endurtaki sig ekki.

Spilað verður aftur í Bærum í kvöld þegar Tékkar mæta Úkraínu, og Frakkar mæta svo Norðmönnum klukkan 19:30. Tvær síðastnefndu þjóðirnar eru komnar áfram í milliriðil og keppa í kvöld um að taka með sér tvö stig þangað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×