Fótbolti

Mourinho kallar nýjustu sögu­sagnirnar sápu­óperu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jose Mourinho gaf ekki mikið fyrir það að vera orðaður við Real Madrid.
Jose Mourinho gaf ekki mikið fyrir það að vera orðaður við Real Madrid. Getty/Diogo Cardoso

José Mourinho, þjálfari Benfica, hefur skotið niður nýjustu sögusagnirnar um hugsanlega endurkomu til Real Madrid í sumar.

Madrid lét Xabi Alonso fara í síðustu viku eftir innan við átta mánuði í starfi og réð Álvaro Arbeloa, þjálfara varaliðs Madrid, í hans stað.

Þegar Mourinho var spurður um vangaveltur á Spáni um að Real Madrid vilji fá hann aftur fyrir tímabilið 2026–27, sagði hann eftir 2-0 sigur Benfica á Rio Ave á laugardag: 

„Reiknið ekki með mér í sápuóperur. Það eru til margar góðar sápuóperur en þær eru of langar,“ sagði Mourinho.

„Svo missir maður af þætti eða tveimur og týnir þræðinum. Reiknið ekki með mér, ég horfi ekki á sápuóperur,“ sagði Mourinho.

HInn 62 ára gamli Mourinho stýrði Real Madrid til sigurs í spænsku deildinni, spænska bikarnum og spænska ofurbikarnum á þeim þremur tímabilum (2010–13) sem hann var hjá spænska stórveldinu.

Fyrrverandi stjóri Chelsea og Manchester United tók við stjórnartaumunum hjá Benfica í september og er með samning til júní 2027.

Benfica, sem er í þriðja sæti Primeira Liga, tíu stigum á eftir toppliði FC Porto, mætir Juventus á útivelli í Meistaradeildinni á miðvikudag áður en liðið tekur á móti Real Madrid, fyrrverandi félagi Mourinho, þann 28. janúar.

Vinni Mourinho Real Madrid verða umræddar sögusagnir örugglega enn þá háværari.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×