Fótbolti

Guardiola um Haaland: „Hann svaf ó­trú­lega vel“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Pep Guardiola með Erling Haaland of Manchester City í tapleiknum á móti Manchester United um síðustu helgi.
Pep Guardiola með Erling Haaland of Manchester City í tapleiknum á móti Manchester United um síðustu helgi. Getty/Carl Recine

Norðmenn eru afar spenntir fyrir leik í Meistaradeildinni í fótbolta annað kvöld en Bodö/Glimt tekur þá á móti Manchester City norðan við heimskautsbaug.

Lykilmaður City er auðvitað norski framherjinn Erling Braut Haaland, ein allra stærsta íþróttastjarna Norðmanna fyrr og síðar.

Pep Guardiola svaraði spurningum um Haaland á blaðamannafundi en Manchester City hópurinn kom norður til Bodö í kvöld.

Eftir sigurinn í deildabikarnum gegn Newcastle fyrir sex dögum síðan sagði Pep Guardiola, þjálfari Manchester City, að Haaland þyrfti hvíld.

Ekki þreyttur lengur

En á blaðamannafundinum á mánudagskvöldið sneri Guardiola út úr þeim ummælum sínum.

„Hann (Haaland) sagði mér að hann hefði sofið ótrúlega vel,“ sagði Guardiola við norsku blaðamennina. City liðið glímir við meiðsli og Haaland hefur neyðst til að spila þótt hann sé ekki í sínu besta formi, sem sést á því að hann hefur aðeins skorað eitt mark í síðustu sjö leikjum.

Aðspurður hvort norski framherjinn geti haldið áfram að spila jafn mikið og hann gerir núna, svaraði Guardiola:

„Það fer eftir hugarfari hans. Ef hugarfarið er í fullum gangi mun hann ráða því,“ sagði Guardiola.

Þjálfari City, sem er fæddur og uppalinn á Spáni, var einnig að fá spurningu um hvernig það væri að vera norðan við heimskautsbaug,  kannski í fyrsta sinn eða hvað?

„Afsakaðu, vinur minn. Ég var í Ósló og á Lófóten fyrir ári síðan og það er frábært svo ég þekki svæðið fullkomlega. Og veðrið líka,“ sagði Guardiola brosandi.

Lítur ekki út fyrir að vera úrvinda

Odin Bjørtuft, varnarmaður Bodø/Glimt, telur ekki að það verði auðvelt að stöðva framherjann, sem er næstum tveir metrar á hæð, á gervigrasinu á Aspmyra.

„Mér finnst hann ekki líta út fyrir að vera úrvinda,“ sagði Björtuft á blaðamannafundi Bodö/Glimt.

Hann telur að hann muni reyna að stöðva einn besta framherja heims á þriðjudagskvöldið.

„Sú áskorun verður ótrúlega skemmtileg. Að mæta bestu fótboltamönnum heims er besti lærdómurinn sem þú færð. Þótt hann hafi skorað svolítið lítið undanfarið vitum við öll hversu góður hann er,“ sagði Björtuft.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×