Erlent

Drógu mann út á nær­buxunum sem hafði ekkert til saka unnið

Kjartan Kjartansson skrifar
Chongly Thao á heimili sínu í St. Pauli í Minnesota daginn eftir að alríkisfulltrúar brutust inn til hans og handtóku hann án handtökutilskipunar eða leitarheimildar.
Chongly Thao á heimili sínu í St. Pauli í Minnesota daginn eftir að alríkisfulltrúar brutust inn til hans og handtóku hann án handtökutilskipunar eða leitarheimildar. AP/Jack Brook

Útsendarar bandaríska innflytjendaeftirlitsins drógu saklausan mann út úr húsi sínu á nærbuxunum einum fata í nístingskulda í Minnesota eftir að þeir réðust inn í húsið án leitarheimildar. Skammt er síðan alríkisfulltrúi skaut konu til bana í rassíu sem stendur enn yfir í ríkinu.

Vargöld ríkir nú í Minnesota í Bandaríkjunum þar sem alríkisstjórnin stendur fyrir umfangsmestu rassíu gegn innflytjendum á síðari árum. Mikil mótmælti hafa brotist út í Minneapolis, stærstu borg ríkisins, gegn aðförðum alríkisfulltrúanna, ekki síst eftir að einn þeirra skaut konu til bana í borginni fyrir tveimur vikum.

Þrátt fyrir að yfirlýst markmið alríkisstjórnarinnar sé að hafa hendur í hári hættulegra glæpamanna sem dvelja ólöglega í landinu hafa grímuklæddir og óauðkenndir útsendarar Innflytjenda- og tollaeftirlits Bandaríkjanna (ICE) gripið bandaríska ríkisborgara sem hafa ekkert til saka unnið.

Myndir og myndbönd af því þegar ICE-liðar drógu Chongly „Scott“ Thao, bandarískan ríkisborgara sem er ættaður frá Laos, á nærbuxunum út af heimili sínu í St. Paul hafa þannig verið víða í dreifingu undanfarna daga.

The windchill was below-zero when ChongLy Scott Thao, 57 — wearing only boxers and Crocs, with a blanket draped over his shoulders — was handcuffed and ushered outside by federal agents agents who broke open his door.

[image or embed]

— Minnesota Star Tribune (@startribune.com) January 20, 2026 at 12:30 AM

Thao var handtekinn án þess að handtökuskipun hefði verið gefin út á hendur honum á sunnudag en síðan sleppt án ákæru. Hann segir AP-fréttastofunni að útsendarar ICE hafi brotist inn á heimili hans án leitarheimildar, miðað byssum á fjölskylduna og öskrað á hana.

„Ég titraði. Þeir framvísuðu ekki neinni leitarheimild, þeir brutu bara niður hurðina,“ segir Thao.

Vildu ekki skoða skilríkin hans

Thao, sem er 57 ára gamall, lýsir því þannig að tengdadóttir hans hafi vakið hann af síðdegisblundi og sagt honum að ICE-liðar knýðu dyra. Hann hafi sagt henni að opna ekki. Skipti þá engum togum að grímuklæddir útsendararnir brutu sér leið inn með vopnaskaki.

Á meðan fulltrúarnir tóku hann höndum sagði Thao tengdadóttur sinni að finna til skilríkin hans. Fulltrúarnir hefðu þá sagt að þeir kærðu sig ekki um að skoða þau.

Thao var svo leiddur út í handjárnum á sandölum og í nærbuxum með teppi yfir herðunum á meðan fjögurra ára sonarsonur hans fylgdist grátandi með.

Báðust ekki afsökunar

ICE-fulltrúarnir óku með Thao á afskekktan stað þar sem þeir létu hann fara út úr bíl í kuldanum til þess að þeir gætu tekið myndir af honum. Það var fyrst þá sem útsendararnir skoðuðu málið og komust að því að hann hefði verið bandarískur ríkisborgari í áratugi og hefði hreint sakarvottorð.

Einum eða tveimur klukkutímum síðar hafi fulltrúarnir ekið Thao aftur heim til hans og skoðað skilríkin hans. Þeir hafi svo farið án þess að biðja hann afsökunar á að hafa handtekið hann og brotið niður hurðina á húsinu hans.

Thao segist ætla að kæra heimavarnaráðuneyti Bandaríkjanna fyrir að brjóta gegn borgaralegum réttindum hans. Honum upplifi nú óöryggi á eigin heimili.

„Mér líður alls ekki öruggum. Hvað gerði ég rangt? Ég gerði ekki neitt.“

Í leit að kynferðisbrotamönnum

Heimavarnastofnunin réttlætir aðfarirnar með því að ICE-útsendararnir hafi verið á höttunum eftir tveimur dæmdum kynferðisbrotamönnum. Thao byggi með þeim í húsinu sem ráðist var inn í.

Fjölskylda Thao vísar því alfarið á bug og fordæmir ráðuneytið fyrir að réttlæta gjörðir sínar með ósannindum og rangfærslum.

Taka ber yfirlýsingum ráðuneytisins og ICE með fyrirvara þar sem báðar stofnanir hafa áður logið blákalt um árekstra stofnunarinnar við almenning.

Thao segir að hann búi með syni sínum, tengdadóttur og sonarsyni í húsinu. AP-fréttastofan sannreyndi að hvorki þau né eigandi hússins sem þau leigja sé á skrá yfir dæmda kynferðisbrotamenn. Raunar sé enginn skráður kynferðisbrotamaður innan tveggja húsalengja frá fjölskyldunni.

Sonur Thao segir aftur á móti að ICE-liðar hafi stöðvað hann þegar hann ók í vinnuna áður en þeir fóru og handtóku föður hans. Hann var á bíl sem hann fékk lánaðan hjá kærasta frænku sinnar. AP segir að kærastinn hafi sama fornafn og annar asískur karlmaður sem var dæmdur fyrir kynferðisbrot. Sonur Thao segir ekki um sama mann að ræða.

Ráðuneytið neitaði að segja AP nöfn meintu kynferðisbrotamannanna sem áttu að dvelja í húsi Thao.

Var ekki vært í Laos vegna stuðnings við Bandaríkjamenn

Fjölskyldu Thao gremst sérstaklega meðferð alríkisstjórnarinnar á honum í ljósi sögu hennar. Stjúpmóðir Thao þurfti að flýja heimaland sitt Laos vegna ofsókna kommúnistastjórnarinnar á hmong-fólki, þjóðarbroti sem studdi Bandaríkjamenn í leynilegum aðgerðum þeirra í landinu á meðan Víetnamstríðið geisaði.

Choua Thao, móðir Chongly, var hjúkrunarfræðingur í Laos. Hún var hluti af hmong-fólki sem studdi Bandaríkin og flúði landið undan ofsóknum kommúnista.AP/Galen S Beery/HmongStory Legacy

Tengdadóttir stjúpmóðurinnar, sem lést í desember, skrifaði í fjársöfnun fyrir fjölskylduna að hún hefði sem hjúkrunarfræðingur annast fjölda óbreyttra borgara og bandaríska hermenn í samvinnu við bandarískt lið.

Kaohly Her, borgarstjóri St. Pauli sem er sjálf af hmong-ættum, segir að ICE sé ekki að gera það sem stofnunin segist gera í Minnesota.

„Þeir eru ekki að eltast við harðsvíraða glæpamenn. Þeir eltast við allt og alla sem verða á vegi þeirra. Það er óviðunandi og óbandarískt,“ segir Her.

Handtaka ríkisborgara

Hundruð bandarískra ríkisborgara hefur lent í greipum innflytjendayfirvalda undanfarna mánuði, að því er virðist aðeins vegna útlits þeirra.

Rannsóknarblaðamennskusamtökin Pro Publica sögðu frá því um miðjan október að þau hefðu fundið 170 dæmi um að bandarískir ríkisborgarar hefðu verið handteknir af innflytjendaeftirlitsmönnum. Sumum þeirra var haldið í nokkra daga og sumir sættu ofbeldi í varðhaldi.

Þá eru dæmi um að alríkissútendarar hafi stöðvað og jafnvel handtekið bandaríska frumbyggja í aðgerðum sínum.

Ekkert bendir til þess að draga muni úr spennunni í Minnesota á næstunni. Alríkisstjórnin hefur meðal annars hótað því að senda inn herinn til þess að bæla niður mótmæla íbúa gegn aðgerðum ICE.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×