Enski boltinn

Leik­maður Liverpool lenti í eltihrelli

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Marie Hobinger átti erfitt með að einbeita sér inni á vellinum þegar hún vissi af eltihrelli uppi í stúku.
Marie Hobinger átti erfitt með að einbeita sér inni á vellinum þegar hún vissi af eltihrelli uppi í stúku. Nick Taylor/Liverpool FC/Liverpool FC via Getty Images

Breskur maður á fimmtudagsaldri var úrskurðaður í nálgunarbann og átján mánaða samfélagsþjónustu eftir að hafa elt og hrellt Marie Hobinger, leikmann Liverpool í ensku úrvalsdeildinni.

Maðurinn er tveggja barna faðir og heitir Mangal Dalal. Hann er 42 ára gamall og er frá Lundúnum á Englandi. Fyrir uppkvaðningu dómsins játaði hann brot sitt og sagðist hafa verið að glíma við andleg vandamál tengd geðhvarfasýki sinni þegar brotin áttu sér stað.

Hann notaði tvo mismunandi aðganga á samfélagsmiðlum og sendi Hobinger ítrekuð skilaboð. Fyrstu skilaboðin snerust um einfaldar ástarjátningar en skilaboðin urðu sífellt grófari og á endanum var maðurinn farinn að senda myndir af kynfærum og biðja um kynlíf.

„Ertu búin að snerta þig til að hita upp fyrir leikinn?... Viltu vinsamlegast ríða mér?... Mig langar að eignast með þér börn“ var meðal skilaboða sem hann sendi, ásamt heimilisfangi sínu.

Hobinger brást við með því að blokka Dalal á samfélagsmiðlum og láta Liverpool vita. Hún fékk þá öryggisfulltrúa frá félaginu til að fylgja sér, og það átti eftir að reynast heillaskref.

Dalal fór nefnilega að mæta á leiki Liverpool og eftir leik liðsins við Manchester City beið hann eftir Hobinger. Öryggisfulltrúinn tók eftir því og lét öryggisgæsluna vita á meðan Hobinger var fylgt heim. Dalal játaði þá að hann væri eltihrellir Hobinger.

Hobinger segir þetta hafa haft mikil áhrif á sín störf sem leikmaður Liverpool, hún hafi átt erfitt með einbeita sér að leikjum og sífellt verið stressuð þegar hún sá myndavélar á lofti í stúkunni, því hún gat aldrei verið viss um hver væri að taka myndir af henni eða af hverju.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×