Handbolti

„Beint flug til Köben og nokkrir veikinda­dagar“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Viktor Gísli Hallgrímsson átti stórkostlegan leik í marki Íslands gegn Ungverjalandi.
Viktor Gísli Hallgrímsson átti stórkostlegan leik í marki Íslands gegn Ungverjalandi. sýn sport

Vel lá á Viktori Gísla Hallgrímssyni eftir eins marks sigur Íslands á Ungverjalandi, 23-24, í F-riðli á Evrópumótinu í handbolta í dag. Viktor átti stórleik og varði 23 skot.

„Maður er í smá spennufalli. Þetta er sturluð tilfinning og takk fyrir alla áhorfendurna sem komu og studdu okkur og ég vonast til að sjá sem flesta í Malmö. Þetta er beint flug til Köben og nokkrir veikindadagar. Ég vil sjá sem flesta,“ sagði Viktor í samtali við Val Pál Eiríksson eftir leikinn.

Klippa: Viðtal við Viktor Gísla

Talsverð ásókn var í Viktor eftir leik en hann þurfti að fara í ófá viðtölin á hinum ýmsu tungumálum.

„Danskan er enn allt í lagi. Ég æfi hana á hverjum degi með makkernum hjá Barcelona,“ sagði Viktor og vísaði til danska landsliðsmarkvarðarins Emils Nielsen.

Viktor sagði sterkan varnarleik hafa dregið íslenska liðið yfir línuna í kvöld, þrátt fyrir að Elvar Örn Jónsson hafi meiðst og Ýmir Örn Gíslason fengið rautt spjald snemma í seinni hálfleik. 

„Sturluð vörn og eins og í öllum leikjunum. Við misstum Elvar og Ými sem hafa spilað nánast allar mínúturnar,“ sagði Viktor en Ísland átti ás uppi í erminni: Einar Þorstein Ólafsson sem missti af fyrstu tveimur leikjunum vegna veikinda.

„Ég er ekki búinn að sjá hann í þrjá daga en svo kemur hann bara inn og gerir það sem hann gerði í dag. Hann og Elliði eiga stórt hrós skilið. Janus [Daði Smárason] líka. Hann er ekki sá hávaxnasti en blokkaði tvo. Sturluð vörn og loksins klukkaði ég einhverja bolta fyrir aftan,“ sagði Viktor sem var nokkuð rólegur í tíðinni í fyrstu tveimur leikjum Íslands á EM.

„Ég var pirraður og fannst ég geta gert betur. Þessir fyrstu tveir leikir voru kannski ekki auðveldir fyrir markmann en ég er með ákveðna standarda fyrir mig og ég uppfyllti þá ekki. En ég hélt áfram að einbeita mér að hlutum sem ég get stjórnað og stundum dettur maður í gang eins og núna.“

Í aðdraganda leiksins í kvöld var mikið rætt um Ungverjagrýluna en þeir ungversku hafa oftar en ekki gert Íslendingum grikk á ögurstundu. Að þessu sinni vann Ísland hins vegar og tekur tvö stig með sér í milliriðil.

„Við höfum spilað alltof oft á móti Ungverjum og [Richard] Bodo hefur alltof oft skotið í gegnum mig. Það er ekki mjög gaman að spila á móti honum. Þetta er búið að vera markmiðið síðan Snorri tók við. Hann hefur alltaf imprað á því hvað þetta er mikilvægt, að fara með tvö stig inn í milliriðil,“ sagði Viktor. 

„Við fáum að upplifa það í þetta skipti og þetta var mikið þroskamerki. Við fengum mikið í andlitið í dag og hefðum getað brotnað undan pressunni en einhvern veginn fann maður enga taugaveiklun frá neinum. Mér fannst alltaf eins og við værum að fara að vinna. Þetta var mjög áhugaverð tilfinning.“

Viðtalið við Viktor má sjá í spilaranum hér fyrir ofan.


Tengdar fréttir

„Bara vá, ég er svo glaður“

„Vá, maður er bara ótrúlega léttur á því einhvernveginn,“ sagði brosmildur Gísli Þorgeir Kristjánsson eftir sigur Íslands gegn Ungverjalandi á EM í handbolta í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×