Lífið

Staðgöngumóðir „öruggasta leiðin“ til að stækka fjöl­skylduna

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Meghan Trainor birti myndaröð af nýfæddri dótturinni og öðrum fjölskyldumeðlimum.
Meghan Trainor birti myndaröð af nýfæddri dótturinni og öðrum fjölskyldumeðlimum.

Poppsöngkonan Meghan Trainor er orðin þriggja barna móðir eftir að staðgöngumóðir eignaðist stúlku. Trainor segir staðgöngumæðrun hafa verið öruggustu leiðina fyrir hjónin til að stækka fjölskyldu sína.

Staðgöngumóðirin eignaðist barnið þann 18. janúar síðastliðinn og hefur hún fengið nafnið Mikey Moon Trainor. Fyrir á hin 32 ára Trainor tvo syni með manni sínum, 33 ára Spy Kids-leikaranum Daryl Sabara, sem hún eignaðist sjálf.

„Dóttir okkar, Mikey Moon Trainor, er loksins komin í heiminn þökk sé ótrúlegu, ofurmannlegu staðgöngumóður okkar,“ skrifaði Trainor í Instagram-færslu 20. janúar þar sem hún tilkynnti fregnirnar.

„Við erum að eilífu þakklát öllum læknunum, hjúkrunarfræðingunum og fólkinu sem gerði þennan draum mögulegan. Við áttum endalaust af samtölum við læknana okkar á þessu ferðalagi og þetta var öruggasta leiðin fyrir okkur til að stækka fjölskylduna.“

Meghan Trainor, sem vakti fyrst athygli fyrir lagið „All About That Bass“ árið 2014, giftist leikaranum Daryl Sabara, sem er þekktastur fyrir leik sinn í Spy Kids, árið 2018 og eiga þau, auk nýfæddrar dótturinnar, synina Riley og Barry.

Deilt hefur verið um lagalega, félagslega, læknisfræðilega og siðfræðilega þætti staðgöngumæðrunar sem er ekki lögleg á Íslandi. Þingsályktunartillögur og frumvörp um staðgöngumæðrun hafa reglulega komið fyrir þingið en ekki verið samþykkt.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.