Haaland fékk smá hvíld í kær­komnum sigri City

Erling Haaland gat tekið því rólega á bekknum í fyrri hálfleik og horft á City skora tvö mörk. 
Erling Haaland gat tekið því rólega á bekknum í fyrri hálfleik og horft á City skora tvö mörk.  Getty/Robbie Jay Barratt

Manchester City vann þægilegan 2-0 sigur gegn Wolverhampton Wanderers í 23. umferð ensku úrvalsdeildarinnar. Omar Marmoush og Antoine Semenyo settu mörkin.

Pep Guardiola gat leyft sér að hvíla Erling Haaland í 73 mínútur þegar botnliðið kom í heimsókn.

Magnaður Marmoush

Omar Marmoush byrjaði í framherjastöðunni í hans stað og þakkaði traustið strax á 6. mínútu leiksins, þegar hann skoraði opnunarmarkið eftir frábæra fyrirgjöf Matheus Nunes.

Marmoush átti eftir að halda áfram að hrella Úlfana. Hann skaut í stöngina á 35. mínútu og vildi síðan fá vítaspyrnu á 39. mínútu þegar hann sendi fyrirgjöf og boltinn fór í hönd varnarmanns. Dómarinn ákvað hins vegar að sleppa Úlfunum að þessu sinni, því honum þótti höndin vera í náttúrulegri stöðu.

Sjóðheitur Semenyo og Cherki litlu síðri 

Það kom ekki að mikilli sök því Antoine Semenyo tvöfaldaði forystu City fyrir hálfleik. Hann fékk boltann frá Bernardo Silva og afgreiddi færið mjög snyrtilega með vinstri fæti. Þetta var fimmtánda markið sem Semenyo kemur að í síðustu sautján leikjum með Bournemouth og Manchester City. 

Þó hinir tveir af þremur fremstu mönnum City hafi skorað mörkin var Rayan Cherki líka algjörlega stórkostlegur, óheppinn að skora ekki og skapaði fullt af færum fyrir liðsfélaga sína.

Úlfarnir öflugri í seinni hálfleik og skutu í slá 

Úlfarnir tóku vel við sér sóknarlega í upphafi seinni hálfleiks og áttu nokkrar marktilraunir, en voru líka mjög opnir til baka.

Staðan hélst þó óbreytt, eftir nokkrar góðar markvörslur á sitt hvorum endanum og sláarskot hjá báðum liðum.

Sigurinn var kærkominn fyrir City, sem hafði tapað síðustu tveimur leikjum en tókst að minnka forskot toppliðs Arsenal niður í fjögur stig með þessum sigri. Úlfarnir sitja hins vegar áfram í neðsta sæti ensku úrvalsdeildarinnar.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira