Handbolti

„Þeir spila hægan bolta og reyna að svæfa mann“

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Einar Þorsteinn og aðrir leikmenn og starfsmenn íslenska liðsins niðurlútir á bekknum.
Einar Þorsteinn og aðrir leikmenn og starfsmenn íslenska liðsins niðurlútir á bekknum. Vísir/Vilhelm

„Ég held að allir séu bara helvíti fúlir,“ sagði Einar Þorsteinn Ólafsson, leikmaður íslenska karlalandsliðsins í handbolta, eftir súrt eins marks tap liðsins gegn Króötum á EM í dag.

„Þetta er allavega ekki það sem vildum,“ bætti niðurlútur Einar Þorsteinn við.

Hann segir að það hafi verið krefjandi að kljást við sterka Króatana.

„Þeir eru sterkir og hávaxnir. Þeir spila hægan bolta og reyna að svæfa mann og svo koma bara inerhverja klippingar og skot. Við vorum kannski bara ekki alveg eins góðir og við gátum verið.“

Varnarleikur fyrri hálfleiks hafi ekki verið til útflutnings, en íslenska liðinu tókst að bæta vörnina eftir hlé. 

„Við þurftum bara að taka meiri stjórn. Við vorum alltaf að bíða. Við vorum rosa lengi í gang og vorum alltaf að bíða eftir því að þeir myndu gera eitthvað. Við þurftum að reyna að taka fyrsta skrefið til að leyfa þeim ekki að stjórna leiknum.“

„Það er enn þá fullt af leikjum eftir til að svara fyrir okkur og læra af þessu. Við þurfum bara að fara að undirbúa okkur fyrir næsta leik. Það er eiginlega það eina sem hægt er að gera,“ sagði Einar að lokum.

Klippa: Einar Þorsteinn eftir tapið gegn Króötum



Fleiri fréttir

Sjá meira


×