Handbolti

„Eitt besta lið í heimi“

Valur Páll Eiríksson skrifar
Snorri Steinn var kátur á æfingu landsliðsins í gær.
Snorri Steinn var kátur á æfingu landsliðsins í gær. Vísir/Vilhelm

Snorri Steinn Guðjónsson segir ljóst að þörf sé á afar góðri frammistöðu frá íslenska landsliðinu ætli það sér að hafa betur gegn Svíum í Malmö í dag.

„Það er alltaf erfitt að tapa og maður er svekktur en getur ekki farið of langt niður. Við undirbúum næsta leik og fókusinn er á Svíana,“ sagði Snorri Steinn þegar hann var tekinn tali fyrir æfingu íslenska liðsins í keppnishöllinni í Malmö í gær.

Það er því nýr dagur og ný tækifæri. Næsta verkefni er að fagna sigri gegn Svíum í dag í fyrsta úrslitaleik Íslands af þremur, ætli liðið sér í undanúrslit.

„Þannig virkar stórmótabransinn í handboltanum. Þú hefur lítinn tíma og við þurfum að einbeita okkur að næsta verkefni. Við erum búnir að fara yfir leikinn í gær og það er margt þar sem er svakalega svekkjandi. Sérstaklega þegar leikurinn tapast með einu marki er auðveldlega hægt að taka til hluti sem við hefðum getað lagað eða gert aðeins betur. En við græðum lítið á því núna,“ segir Snorri og bætir við:

„Við þurfum bara að bretta upp ermar. Við erum að fara að mæta einu besta liði í heimi sem hefur verið frábært í síðustu leikjum og það á þeirra heimavelli. Það segir sig sjálft að það er alvöru verkefni.“

Ekki orðið var við gagnrýnina

Landsliðsfyrirliðinn Ómar Ingi Magnússon hefur sætt eilítilli gagnrýni af sérfræðingum heima fyrir vegna lítils markaskors úr opnum leik. Snorri segist lítið geta tjáð sig um gagnrýni sem hann þekki ekki til.

„Ég get ekki kommentað á eitthvað sem ég hef hvorki lesið né heyrt. Ég veit ekki alveg að hverju hún snýr. Ég hef bara verið ánægður með hann. Hann eins og aðrir geta alveg gert betur en það er erfitt fyrir mig að tjá mig um eitthvað sem ég hef ekki séð eða lesið,“ segir Snorri Steinn.

En kemur til greina að hlutverk Viggós Kristjánssonar verði stærra á kostnað Ómars?

„Viggó er bara frábær. Hann hefur reynst okkur mjög vel. Ef ég tek leikinn í gær, þá var það sem við lögðum upp með sóknarlega að virka og gekk vel. Það var góður taktur í Janusi, Gísla, Ómari og Hauki þegar hann kom. Það þarf lítið út af að bregða gegn Króötum sóknarlega til að maður lendi í ákveðnu öngstræti. Mér fannst við finna lausnirnar þar og þess vegna hélt ég Ómari inni. En Viggó kemur eins og alltaf mjög vel til greina,“ segir Snorri.

Gríðarlega sterkur andstæðingur

Sænska landsliðið er meðal þeirra betri í heimi, líkt og Snorri nefnir að ofan. Verkefnið er ærið, að ætla að vinna Svía í Malmö, en búast má við töluvert frábrugðnu verkefni frá leiknum við Króata.

„Þetta sænska lið er allt öðruvísi en Króatarnir með öðruvísi áherslur. En eins og Króatarnir eru þeir frábærir í því sem þeir gera. Bæði sóknarlega og varnarlega, frábært hraðaupphlaupslið sem gerir ótrúlega fáa tæknifeila. Svo það er rosa margt sem þarf að varast á móti þeim,“ segir Snorri.

En mun stemningin og heimavöllurinn skipta miklu máli á morgun?

„Það er yfirleitt mjög gaman að spila á móti heimaþjóðinni. En ég er ekkert viss um að við séum með frábæra tölfræði. Óskar Ófeigur fer í að skoða það fyrir okkur. Yfirleitt er það gaman í troðfullu húsi og mikilli stemningu. Þú pælir ekkert svakalega í því þegar á hólminn er komið. Ég væri alveg til í að allir væru á okkar bandi en ég held það verði ekki þannig á morgun,“ segir Snorri Steinn léttur að endingu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×