Enski boltinn

Aston Villa lifði af orra­hríð fyrir norðan og náði Manchester City

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ollie Watkins fagnar seinna marki Aston Villa sem innsiglaði sigurinn.
Ollie Watkins fagnar seinna marki Aston Villa sem innsiglaði sigurinn. Getty/George Wood

Nottingham Forest og Aston Villa unnu bæði góða útisigra í ensku úrvalsdeildinni í dag. Villa-menn sóttu stigin þrjú norður til Newcastle en Forest-menn sóttu þrjú stig suður til London.

Aston Villa vann 2-0 sigur á Newcastle United á St. James' Park og komst þar með upp að hlið Manchester City í öðru sæti deildarinnar. Villa og City eru fjórum stigum á eftir toppliði Arsenal sem á síðan leik á móti Manchester United á eftir.

Emiliano Buendia kom Villa í 1-0 á 19. mínútu með frábæru skoti, Villa-menn stóðust síðan stórsókn heimamanna áður en Ollie Watkins innsiglaði sigurinn á 88. mínútu. Þetta var fyrsti sigur liðsins á St. James' Park frá 2005 eða í næstum því 21 ár.

Newcastle er í 9. sæti en þetta var fyrsta tapið á nýju ári og það fyrsta í fimm leikjum. Liðið var með mun hærra xG í leiknum og skapaði sér fleiri færi en það dugði ekki til. Villa-liðið komst aftur á sigurbraut eftir að hafa aðeins náð í eitt stig út úr síðustu tveimur deildarleikjum sínum.

Nottingham Forest vann á sama tíma 2-0 útisigur á Brentford í London og er eftir það fimm stigum fyrir ofan fallsætið þar sem West Ham situr. Þetta var mikilvægur sigur því West Ham vann sinn annan leik í röð í gær.

Igor Jesus skoraði fyrra mark Forest á 12. mínútu en Taiwo Awoniyi innsiglaði sigurinn á 79. mínútu.

Brentford tapaði þarna öðrum leiknum í röð en liðið er í áttunda sæti eða í næsta sæti fyrir ofan Newcastle.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×