Handbolti

Sænska goð­sögnin: Þeir hafa ekki viljann sem Ís­lendingar hafa

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Elliði Snær Viðarsson liggur í gólfinu eftir að hafa skorað hjá Svíum. Hann náði ellefu löglegum stöðvunum í leiknum.
Elliði Snær Viðarsson liggur í gólfinu eftir að hafa skorað hjá Svíum. Hann náði ellefu löglegum stöðvunum í leiknum. Vísir/Vilhelm

Einn fremsti handboltamaðurinn í sögu Svía var allt en ánægður með frammistöðu sænska landsliðsins í skellinum á móti strákunum okkar í kvöld.

Magnus Wislander vann ófáa titla með sænska landsliðinu og var fyrirliði sænska landsliðsins sem fór oft illa með íslenska landsliðið á stórmótum.

Wislander starfar nú sem handboltasérfræðingur og var að tjá sig um átta marka skellinn á móti Íslandi í Malmö í kvöld.

„Síðustu tíu mínúturnar voru algjört hrun,“ sagði Magnus Wislander á Radiosporten. Expressen sagði frá.

„Þetta er komið í hausinn á leikmönnunum. Taugaveiklunin breiðist út um allt núna,“ sagði Martin Frändesjö í útsendingu hjá hinni sænsku útgáfu af Viaplay.

Á sama tíma setti Magnus Wislander spurningamerki við hugarfar Svía þegar leikaðferðin bregst.

„Fyrir Svía snýst þetta um að spila aðeins meira með höfðinu. Þeir hafa ekki viljann sem Íslendingar hafa meira af í augnablikinu,“ sagði Wislander.

„Það er virkilega niðurdrepandi að Ísland leiði með sex mörkum,“ sagði Wislander.

Magnus Wislander skorar í síðasta landsleik sínum gegn Íslandi sem var á EM 2002.vísir/epa

Byrjun seinni hálfleiks var alls ekki jafn niðurdrepandi en það hjálpaði lítið þegar Ísland valtaði yfir Svíþjóð á lokamínútunum.

„Síðustu tíu mínúturnar er algjört hrun hjá sænska liðinu. Ekkert virkaði í sókninni,“ sagði Wislander í útsendingunni.

Vonbrigðin voru áþreifanleg hjá sænska liðinu og það leit út fyrir að allur hópurinn og sérfræðingarnir líka væru í sjokki eftir þetta óvænta stóra tap.

Svíar voru á heimavelli og búnir að finna fyrstu fjóra leiki sína sannfærandi í mótinu.

Þeir lentu hins vegar á íslenskum vegg, íslenska geðveikin var mætt en með skynsemina og útsjónarsemina að leiðarljósi. Fyrir vikið komust Svíar ekkert áleiðis og töpuðu fyrir Íslandi í fyrsta sinn í sjö ár.

Magnus Wislander lék alls 386 landsleiki fyrir Svía frá 1985 til 2002. Svíar unnu ellefu marka sigur á Íslendingum í síðasta landsleik hans á móti íslenska landsliðinu.

Wislander vann alls þrettán verðlaun með sænska landsliðinu á stórmótum, þar af fjóra Evrópumeistaratitla og tvo heimsmeistaratitla.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×