Handbolti

Ó­vinur Íslands: „Aldrei stríða heilu landi“

Sindri Sverrisson skrifar
Bjarki Már Elísson og félagar lækkuðu rostann í kokhraustum Svíum með ótrúlegri frammistöðu í Malmö í gær.
Bjarki Már Elísson og félagar lækkuðu rostann í kokhraustum Svíum með ótrúlegri frammistöðu í Malmö í gær. VÍSIR/VILHELM

Sænski handboltaþjálfarinn Andreas Stockenberg hefur átt í vök að verjast á samfélagsmiðlum eftir að hann hraunaði yfir íslenska landsliðið sem svo valtaði yfir það sænska á EM í gær.

„Aldrei stríða heilu landi!!“ skrifaði Stockenberg á Twitter í gær, eftir átta marka stórsigur Íslands gegn Svíþjóð sem hann hafði engan veginn séð fyrir.

Stockenberg hafði nefnilega talað illa um íslenska liðið þegar það tapaði með eins marks mun gegn Króatíu á föstudaginn og lýst því sem skelfilegu liði sem ætti ekki séns í Svíþjóð.

Síðan þá hefur Stockenberg, sem þjálfar hjá Önnered í heimalandinu, að eigin sögn eignast 1.100 nýja, íslenska fylgjendur sem virðast hafa verið duglegir að skjóta á hann og reyndar einnig kallað hann illum nöfnum.

„Svíþjóð var jafn meinlaus og klaufaleg og Ísland á móti Króatíu. Þetta gengur ekki…“ skrifaði Stockenberg eftir leikinn í gær. Þar sagði hann Ísland hafa verið eins og nýtt lið og lært af því sem hann hefði skrifað.

Alltaf líkað vel við Ísland

Hann virðist ekki sjá eftir orðum sínum frá því á föstudaginn og ætlar að útskýra sitt mál betur í íslenskum miðlum í dag.

„Mér hefur alltaf líkað vel við Ísland, bæði fólkið og það sem það gerir í handboltanum. Ég var harður en í fullum rétti að mínu mati? Ég tek öllu háði með brosi því ég hafði rétt fyrir mér,“ skrifaði Stockenberg. Hann sá hins vegar það sem allir aðrir sáu í gær, að Ísland getur á góðum degi gjörsigrað jafnvel eitt besta lið mótsins og það á þeirra heimavelli.

„Það sem truflaði mig mest í dag var að Ísland stjórnaði gangi mála í Malmö Arena strax frá þjóðsöngnum. Þeir unnu leikinn því miður strax þá,“ skrifaði Stockenberg en íslenskir stuðningsmenn voru magnaðir í Malmö í gær eins og þeir hafa verið allt mótið.

„Lít svo á að ég og sænski handboltinn höfum unnið“

Þrátt fyrir allt sem á undan er gengið þá lítur Stockenberg á sjálfan sig sem sigurvegara.

„Harka mín í garð Íslands eftir leikinn við Króatíu hefur haft afleiðingar. Íslenskir stuðningsmenn sem hlæja að mér, kalla mig tussu, aumingja o.s.frv. En það hefur líka leitt til þess að sænski handboltinn hefur fengið 1.100 fleiri fylgjendur á X, ég mun taka þátt í tveimur sjónvarpsþáttum á morgun og einnig í hlaðvarpi. Ég lít svo á að ég og sænski handboltinn höfum unnið,“ skrifaði þjálfarinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×