Handbolti

Dregur til baka um­mæli sín um Gísla Þor­geir

Aron Guðmundsson skrifar
Það héldu Gísla Þorgeiri engin bönd gegn Svíum
Það héldu Gísla Þorgeiri engin bönd gegn Svíum Vísir/Vilhelm

Sér­fræðingar Besta sætisins héldu vart vatni yfir frammistöðu Gísla Þor­geirs Kristjáns­sonar í átta marka sigri Ís­lands á Svíþjóð á EM í hand­bolta í gær. Menn tóku hatt sinn ofan, átu sokk, en um­fram allt dáðust að Gísla Þor­geiri og því hvernig hann hefur tekið af skarið sem leið­togi innan vallar.

Ásgeir Örn Hallgrímsson og Rúnar Kárason, fyrrverandi landsliðsmenn fóru yfir stórbrotna frammistöðu Strákanna okkar, átta mark sigur, 35-27, staðreynd. Gísli Þor­geir var magnaður í þessum mikilvæga sigri Ís­lands í milli­riðlum sem heldur voninni um sæti í undanúr­slitum á lífi. 

Það hvernig hann stýrði leik ís­lenska liðsins vakti at­hygli en hann átti ellefu stoð­sendingar en bjó alls til fimmtán færi fyrir liðs­félaga sína. Þá sótti hann fjögur víti og fiskaði þrjá Svía út af í tvær mínútur. Gísli sprengdi upp sænsku vörnina hvað eftir annað og á rosa­lega mikinn þátt í því að sóknar­leikurinn gekk svona vel.

„Þetta er náttúru­lega stór­kost­leg töl­fræði, alveg með ólíkindum og þú sérð hvernig þeir eru farnir að bregðast við honum,“ sagði Ás­geir Örn um Gísla Þor­geir í Besta sætinu. „Við erum að reyna skapa eitt­hvað eins og venju­lega fyrir hann og sjáum Karls­bogard kominn út á fjórtán metrana því hann er svo hræddur við þessa árás sem er að koma á hann. Það skipti engu máli hvar hann var staddur, Gísli bara dró sig aðeins til hliðar og skildi hann eftir í reyknum, ítrekað.

Mikið af þessum mörkum sem Viggó var til að mynda skora, eftir að Gísli var búinn að jarða ein­hvern þrist þarna og við fáum helvíti gott færi upp úr því. Gísli Þor­geir var al­gjör prímu­smótor í sóknar­leik okkar í þessum leik. Ég held ég hafi sagt það í hverjum einasta hlað­varpsþætti hingað til að hann hefur ekki enn hitt þann varnar­mann sem hann getur ekki fintað upp úr skónum.“

Sá besti maður á mann

Er hann bestur í heimi í akkúrat þessu?

„Ég sé engan annan sem er jafn­góður og hann maður á mann nema kannski Gid­sel. Ég var eitt­hvað að hnýta í Gísla í pall­borðinu á Vísi um daginn, segjandi að hann væri ekki nógu góður að losa boltann. Ég ætla bara að taka það til baka núna því Gísli var að finta, negla honum í hornin og út um allt. Hann losaði stór­kost­lega í þessum leik.“

Rúnar tók undir orð Ás­geirs en Gísli hefur verið mjög góður á mótinu fyrir ís­lenska lands­liðið.

„Þetta er hans besta leik­stjórnanda frammistaða hingað til. Gísli gerir okkur bara það kleift að menn eins og Ómar, Óðinn og Viggó eru að komast í frábær færi og vel gert einnig af þeirra hálfu að nýta sitt en ég tek hatt minn ofan fyrir Gísla.“

„Það er sama hvað bjátar á, sama hvað er verið að gera við okkur, Gísli Þor­geir er að stíga upp í þessu móti sem leið­togi og segja „ég mun aldrei gefast upp og halda áfram að reyna koma okkur yfir þessar hindranir sem bíða okkar. Inn á vellinum er Gísli Þor­geir að taka ótrú­lega mikið til sín sem leið­togi liðsins. Það er frábært að sjá og gaman að sjá í raun­tíma hvernig hann vex í því hlut­verki.“

Hlusta má á Besta sætið í spilaranum hér fyrir ofan eða á streymisveitum í gegnum hlekkina hér fyrir neðan:


Tengdar fréttir

Óvinur Íslands: „Aldrei stríða heilu landi“

Sænski handboltaþjálfarinn Andreas Stockenberg hefur átt í vök að verjast á samfélagsmiðlum eftir að hann hraunaði yfir íslenska landsliðið sem svo valtaði yfir það sænska á EM í gær.

„Svo kemur Ómar Ingi og fer að spila eins og Viggó“

Viggó Kristjánsson var öðrum fremur maður leiksins í stórsigrinum á Svíum á EM í handbolta í gærkvöldi og með magnaðri innkomu hans kviknaði heldur betur á hægri vængnum hjá íslenska landsliðinu. Örvhentu leikmennirnir í Besta sætinu voru líka ánægðir með þessa innkomu Viggós og líka hvaða áhrif það hafði á Ómar Inga Magnússon.

Skýrsla Vals: Vel nýttur veikindadagur

Vá. Þetta var leikur í lagi. Það er eiginlega ótrúlegt að skrifa það en Ísland vann átta marka sigur á Svíum í kvöld. Það á þeirra heimavelli, og spilandi þeirra leik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×