Enski boltinn

Ekki gerst hjá Arsenal í á­tján ár

Sindri Sverrisson skrifar
Matheus Cunha fagnar sigurmarkinu gegn Arsenal.
Matheus Cunha fagnar sigurmarkinu gegn Arsenal. Getty/Justin Setterfield

Sigur Manchester United gegn Arsenal á Emirates-leikvanginum í gær, 3-2, var merkilegur fyrir margra hluta sakir.

Matheus Cunha tryggði United sigurinn á 87. mínútu með góðu skoti utan teigs en áður hafði Patrick Dorgu einnig skoraði stórglæsilegt mark með skoti utan teigs.

Þetta er aðeins í annað sinn frá því að Arsenal hóf að spila á Emirates-vellinum, árið 2006, sem að liðið fær á sig tvö mörk með skotum utan teigs í deildarleik. Í fyrra skiptið gerðist það árið 2008, í 4-4 jafntefli við Tottenham.

Hin óhemju trausta vörn Arsenal hafði auk þess leikið 121 leik í röð, í öllum keppnum, án þess að fá á sig meira en tvö mörk í sama leiknum. Það gerðist síðast þegar liðið vann Luton Town 4-3 þann 5. desember 2023.

Þetta er í fyrsta sinn síðan í mars 2021, þá undir stjórn Ole Gunnar Solskjær, sem að United vinnur topplið deildarinnar á útivelli. Þetta er jafnframt í fyrsta sinn frá árinu 2018 sem að liðið nær að skora þrjú mörk á útivelli gegn toppliðinu.

Óhætt er að segja að byrjun Michael Carrick sem stjóri United hafi verið draumi líkust því United hefur nú unnið bæði Arsenal og Manchester City. Liðið er komið í 4. sæti en er þó tólf stigum frá toppnum þar sem Arsenal situr. 

Næsti leikur United er á sunnudaginn, gegn Fulham, en Arsenal spilar gegn Kairat í lokaumferð Meistaradeildarinnar á miðvikudag og sækir svo Leeds heim á laugardaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×