Skoðun

Hver er sinnar gæfu smiður, hver er næstur sjálfum sér

Jón Þór Júlíusson skrifar

Lagareldisfrumvarp ríkisstjórnarinnar ber öll merki þess að vera samið með hagsmuni laxeldisfyrirtækja að leiðarljósi. Það er ekki skrifað út frá vernd náttúru eða almannahagsmunum heldur til að tryggja rekstraröryggi iðnaðar sem allir vita að felur í sér verulega og varanlega umhverfisáhættu.

Sjókvíaeldi á laxi hefur ítrekað sýnt að það ógnar villtum laxastofnum. Sleppingar eldislaxa, laxalús, sjúkdómar og erfðablöndun eru ekki undantekningar heldur eðlilegur fylgifiskur starfseminnar. Þegar slíkt gerist er tjónið óafturkræft. Þrátt fyrir þessa þekking er frumvarpið byggt á þeirri forsendu að þessi áhætta sé ásættanleg.

Í stað þess að draga úr áhættu eða færa starfsemina í öruggari farveg er hún í raun normalíseruð. Frumvarpið gerir ráð fyrir því að vandamál muni koma upp, en í stað þess að tryggja að þeir sem skapa vandann beri ábyrgð er ábyrgðinni snúið við.

Þetta sést skýrast í 8. grein frumvarpsins. Þar er kveðið á um að ríkið bæti laxeldisfyrirtækjum tjón ef starfsemi þeirra er takmörkuð eða stöðvuð vegna umhverfisáhrifa. Með öðrum orðum: ef fyrirtæki gengur á náttúruna og stjórnvöld neyðast til að grípa inn í, þá greiðir almenningur reikninginn. Mengunarbótareglan er þar með sett til hliðar.

Slíkt fyrirkomulag gildir ekki um aðrar atvinnugreinar. Hér er einn iðnaður settur í algjöra sérstöðu, með ríkissjóð sem baktryggingu. Það er erfitt að lesa þetta öðruvísi en sem viðurkenningu á því að vandamál muni koma upp, en að þau eigi ekki að bitna á þeim sem skapa þau.

Frumvarpið veitir ekki raunverulega vernd villtra laxastofna, setur engar afgerandi skorður við útþenslu sjókvíaeldis og veikjar grundvallarhugmyndir um ábyrgð í atvinnurekstri. Áhættan er færð frá fyrirtækjunum yfir á samfélagið í heild.

Niðurstaðan er einföld. Þetta frumvarp á að draga til baka og endurvinna frá grunni. Í núverandi mynd er það ekki aðeins slæm lagasetning, heldur áfellisdómur yfir íslenskri stjórnsýslu – þó af nægu sé vissulega að taka.

Höfundur er framkvæmdarstjóri.




Skoðun

Sjá meira


×