Erlent

Bovino sendur til Kali­forníu og Leavitt dregur í land

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Bovino hefur verið andlit aðgerðanna í Minneapolis, enda jafnan sá eini á vettvangi sem ekki hefur borið einhvers konar grímu til að fela sig á bak við.
Bovino hefur verið andlit aðgerðanna í Minneapolis, enda jafnan sá eini á vettvangi sem ekki hefur borið einhvers konar grímu til að fela sig á bak við. Getty/Anadolu/Lokman Vural Elibol

Svo virðist sem gríðarleg reiði og hörð gagnrýni vegna framgöngu innflytjendayfirvalda í Minneapolis sé farin að hafa áhrif á stjórnvöld vestanhafs en erlendir miðlar greina frá því að ákvörðun hafi verið tekin um að láta Greg Bovino, sem farið hefur fyrir aðgerðum í borginni, snúa aftur til fyrri starfa í Kaliforníu.

Bovino, sem oftar en ekki hefur verið eini fulltrúi yfirvalda á vettvangi sem hefur ekki borið grímu, hefur gengið langt í að verja framgöngu undirmanna sinna og jós meðal annars lofi á mennina sem skutu hjúkrunarfræðinginn Alex Pretti til bana um síðustu helgi. Þá vakti hann mikla athygli fyrir klæðnað sinn á dögunum, þegar hann fór fyrir mönnum sínum íklæddur kuldafrakka sem þótti minna óhugnanlega á klæðnað leiðtoga Þriðja ríkisins.

Mikil reiði greip um sig í kjölfar þess að fulltrúi innflytjenda- og tollaeftirlits Bandaríkjanna (ICE) skaut hina 37 ára Renée Good til bana í Minneapolis fyrr í janúar, þar sem hún var á leið heim eftir að hafa ekið syni sínum í skólann. Reiðin magnaðist enn þegar Pretti var skotinn allt að tíu sinnum á laugardag, þegar hann reyndi að koma konu til aðstoðar sem fulltrúi ICE hafði hrint í götuna.

Líkt og gerðist í kjölfar drápsins á Good voru talsmenn Bandaríkjastjórnar fljótir að koma ICE til varna og fordæmdu meðal annars Pretti fyrir að hafa verið vopnaðan. Þetta varð hins vegar til þess að magna gagnrýnina, þar sem samtök skotvopnaeigenda og ýmsir Repúblikanar brugðust hinir verstu við og bentu á að Pretti hefði haft leyfi til að bera vopn og verið í fullkomnum rétti. Greiningar á myndefni frá atvikinu leiddi einnig í ljós að hann hafði verið afvopnaður áður en hann var ítrekað skotinn þar sem hann lá í jörðinni.

Vísir greindi frá því í gær að Donald Trump Bandaríkjaforseti hefði ákveðið að senda Tom Homan, fyrrverandi yfirmann ICE sem nú fer fyrir landamæramálum, til Minneapolis til að freista þess að draga úr spennu. Þá virtist Karoline Leavitt, fjölmiðlafulltrúi Trump, leitast við að fjarlægja forsetann frá yfirlýsingum samverkamanna hans á blaðamannafundi í gær. Þar var hún meðal annars spurð út í ummæli Stephen Miller, eins helsta ráðgjafa Trump, um að Pretti hefði verið hryðjuverkamaður sem reyndi að myrða fulltrúa ICE en í stað þess að svara ítrekaði Leavitt að hún hefði ekki heyrt forsetann lýsa þessari afstöðu og að hann vildi bíða eftir niðurstöðum rannsókna.

Áður hefur verið greint frá því að líkt og þegar Good var banað hefur staðaryfirvöldum verið haldið frá rannsókn árásarinnar á Pretti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×