Skoðun

Hvað er verið að mæla?

Elliði Vignisson skrifar

Nokkur umræða hefur skapast um veikindakostnað hins opinbera. Sú umræða er bæði eðlileg og nauðsynleg, enda eru laun opinberra starfsmanna greidd af almannafé. Einmitt þess vegna skiptir máli að umræðan sé byggð á staðreyndum og sanngirni, en ekki einföldum ályktunum eða sleggjudómum.

Tölurnar eru háar, það verður ekki horft fram hjá því

Ekki verður fram hjá því litið að veikindakostnaður hins opinbera er hár. Árið 2023 voru veikindi tæplega 8% af öllum vinnustundum á Landspítalanum. Sama ár mældust veikindi í Reykjavík, Hafnarfirði og Kópavogi 7,7%. Þetta er umtalsvert hærra hlutfall en á almennum vinnumarkaði, þar sem Hagstofa Íslands hefur mælt veikindi í kringum 3%. Heildarveikindi hjá mínu sveitarfélagi eru sambærileg við önnur sveitarfélög; síðastliðin fjögur ár hafa þau verið á bilinu 5,6–7,4%. Til að bera saman veikindi á milli markaða þarf þó að skoða hvort að verið sé að mæla það sama.

Freistandi ályktanir, en rangar

Af þessum tölum er freistandi að draga þá ályktun að opinberir starfsmenn séu oftar veikir en aðrir. Sumir ganga jafnvel lengra og halda því fram að veikindaréttur sé frekar misnotaður hjá hinu opinbera. Slíkar ályktanir eru hvorki réttar né sanngjarnar. Myndin er flóknari.

Hér liggur kjarni málsins: veikindarétturinn er ekki sá sami

Meginástæða þess munar sem blasir við í tölum liggur í því að veikindaréttur er ólíkur á almennum og opinberum vinnumarkaði, og sá munur kemur skýrast fram í langtímaveikindum. Á almennum vinnumarkaði er veikindaréttur yfirleitt takmarkaðri og ræðst af kjarasamningum. Algengt er að starfsmaður eigi rétt á 2–6 mánuðum af launum á hverju 12 mánaða tímabili, eftir starfsaldri. Þegar þeim rétti sleppir taka sjúkrasjóðir stéttarfélaga og almannatryggingar við. Á opinbera vinnumarkaðnum er veikindarétturinn hins vegar rýmri, sérstaklega hjá starfsfólki með langan starfsaldur, og getur náð 9–12 mánuðum eða lengur með launum frá vinnuveitanda.

Það sem mælist og það sem hverfur úr tölunum

Þessi munur hefur augljós áhrif á skráningu og mælingu veikinda. Langtímaveikindi sem færast að hluta eða öllu leyti út fyrir vinnuveitanda á almennum markaði birtast síður í veikindatölum fyrirtækja, en koma að fullu fram hjá hinu opinbera.

Þegar tölurnar eru sundurliðaðar kemur önnur mynd í ljós

Þegar veikindi starfsmanna hjá Sveitarfélaginu Ölfusi eru greind nánar kemur þetta skýrt í ljós. Skammtímaveikindi hjá okkur eru á bilinu 2,8–3,2% og eru þar með sambærileg við það sem mælist á almennum vinnumarkaði. Það er fyrst og fremst í langtímaveikindum sem munurinn liggur. Líklegt verður að telja að eins sé þetta hjá þeim sveitarfélögum sem helst hafa verið í umræðunni.

Sleggjudómar skýra ekkert, gögnin gera það

Í þessu ljósi er ljóst að umræða um meint óhófleg veikindi opinberra starfsmanna er flóknari en oft er haldið fram. Hið opinbera er stór hluti vinnumarkaðarins á Íslandi og því skiptir máli að umræðan um frammistöðu og kostnað byggist á réttum forsendum. Fullyrðingar um að opinberir starfsmenn séu veikari en aðrir eða fari óábyrglega með veikindarétt sinn standast ekki þegar rýnt er í gögnin. Sanngirni í umræðu er ekki krafa um undanlátssemi, heldur forsenda upplýstrar ákvörðunartöku.

Höfundur er bæjarstjóri.




Skoðun

Skoðun

Hvað er velsældar­hag­kerfið?

Kristín Vala Ragnarsdóttir,Ásgeir Brynjar Torfason,Brynhildur Davíðsdóttir,Dóra Guðrún Guðmundsdóttir,Silja Elvarsdóttir skrifar

Sjá meira


×