Lífið

Sweeney í vanda fyrir að klæða Hollywood-skiltið í brjósta­haldara

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Sweeney birti myndband af sér fara í sendiferðabíl, keyra upp að Hollywood-skiltinu og klæða það með brjóstahöldurum.
Sweeney birti myndband af sér fara í sendiferðabíl, keyra upp að Hollywood-skiltinu og klæða það með brjóstahöldurum.

Hollywood-stjarnan Sydney Sweeney gæti átt yfir höfði sér málsókn eftir að hafa klifrað í leyfisleyfi upp á Hollywood-skiltið í Los Angeles og skreytt það með brjóstahöldurum úr nýju nærfatalínunni sinni.

Sweeney hefur verið ein umtalaðasta leikkona Hollywood síðustu ára af ýmsum ástæðum. Leikið í vinsælum stórmyndum, stórum floppum og vakið athygli utan skjásins. Nýjasta mynd hennar, Housemaid, hefur fengið góðar viðtökur en hún sló fyrst í gegn í þáttunum Euphoria árið 2019 og kemur þriðja þáttaröð þeirra út í apríl.

Sjá einnig: Við þurfum að ræða Sydney Sweeney

Leikkonan birti myndband á Instagram-síðu sinni í gær af óvenjulegum gjörningi. Þar sem mátti sjá Sweeney fara hettupeysuklædda inn í sendiferðabíl með þýskum fjárhundi og grímuklæddum mönnum, keyra upp að Hollywood-skiltinu, laumast þar gegnum girðingu og skreyta skiltið síðan með brjóstahöldurum úr nýrri nærfatalínu hennar og milljarðamæringsins Jeff Bezos.

Sweeney að störfum.

„Með þessu áframhaldi verðum við gripin glóðvolg,“ segir Sweeney á einum tímapunkti í myndbandinu.

Samkvæmt staðarblaðinu LA Times átti gjörningurinn sér stað án vitneskju eða leyfis verslunarráðs Hollywood (e. Hollywood Chamber of Commerce), sem eiga réttinn að kennileitinu, eða sjóðnum sem fer með umsjá skiltisins (e. The Hollywood Sign Trust).

„Hver sá sem ætlar sér að nota og/eða að fá aðgang að Hollywood-skiltinu til auglýsinganota þarf að fá heimild eða leyfi frá verslunarráði Hollywood til að gera,“ sagði Steve Nissen, forstjóri verslunarráðsins í yfirlýsingu til blaðsins.

Hins vegar hafði teymi Sweeney fengið leyfi fyrir upptökum á svæðinu frá samtökunum FilmLA sem veita leyfi fyrir kvikmyndatöku í allri Los Angeles. Lögreglanog slökkviliðið í Los Angeles vaktar vanalega skiltið til að koma í veg fyrir að ferðamenn fari inn á svæðið auk þess sem það er vaktað með eftirlitsmyndavélum.

Þeir sem fara inn á svæðið í leyfisleysi geta verið ákærðar og hlotið sekt upp á þúsund dali (rúmar 120 þúsund krónur) eða hlotið allt að sex mánaða fangelsisdóm. Málið hefur ekki verið tilkynnt til lögreglu en verslunarráð Hollywood segir rannsókn standa yfir á því hvernig hópurinn fékk aðgang að svæðinu.

Þetta er ekki fyrsti markaðsgjörningur Sweeney sem er einkar lunkinn við að koma sér í fréttirnar. Síðasta sumar vakti hún athygli vegna þátttöku sinnar í auglýsingaherferð fyrir gallabuxur American Eagle sökum meintra rasískra undirtóna.

Sjá einnig: Tjáir sig um auglýsinguna umdeildu og stuðning Trump

Sweeney brást lítið við gagnrýninni en tjáði sig loks um málið í desember og gerði heldur lítið úr gagnrýninni. Þar áður hafði hún vakið athygli fyrir að selja sápu úr baðvatni sínu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.