Handbolti

Ein­kunnir Strákanna okkar á móti Sviss: Magalending í Malmö

Íþróttadeild Sýnar skrifar
Íslensku leikmennirnir voru vonsviknir í leikslok.
Íslensku leikmennirnir voru vonsviknir í leikslok. vísir/vilhelm

Möguleikar íslenska karlalandsliðsins í handbolta á að komast í undanúrslit Evrópumótsins dvínuðu eftir 38-38 jafntefli við Sviss í miklum markaleik í Malmö í dag. Varnarframmistaða Íslands var afar slök.

Ísland er enn á toppi milliriðils II en þarf núna að treysta á önnur úrslit til að eiga möguleika á að komast í undanúrslit.

Snemma leiks sást að íslenska liðið var illa stillt, sérstaklega varnarmegin. Allt lak í gegnum vörnina og Svisslendingar skoruðu að vild. Sem betur fer gerðu Íslendingar það líka. Staðan í hálfleik var jöfn, 19-19.

Íslenska vörnin lagaðist ekkert í seinni hálfleik og Svisslendingar héldu áfram að raða inn mörkum. Þeir leiddu nær allan seinni hálfleikinn og voru þremur mörkum yfir, 33-30, þegar tíu mínútur voru eftir.

Joël Willecke kom Sviss í 38-36 en Viggó Kristjánsson minnkaði muninn í 38-37. Manuel Zehnder tapaði í kjölfarið boltanum og Elliði Snær Viðarsson jafnaði í 38-38 með skoti yfir allan völlinn. Sviss tapaði boltanum aftur og Ísland fékk tækifæri til að tryggja sér sigurinn. Íslendingar höfðu þrjátíu sekúndur til að skora sigurmarkið en lokasóknin var illa útfærð og endaði með neyðarskoti Viggós Kristjánssonar í vörnina.

Sóknarleikur Íslands var að mestu góður enda skoraði liðið 38 mörk. Íslenska liðið gerði hins vegar slæm mistök á mikilvægum augnablikum þegar það hefði getað komist í betri stöðu.

Varnarleikurinn var svo einn sá slakasti sem Ísland hefur sýnt í langan tíma og það varð liðinu að falli. Markvarslan var svo slök.

Lokaleikur Íslands í milliriðli II er gegn Slóveníu klukkan 14:30 á morgun. 

Einkunnir Íslands gegn Sviss: 

- Byrjunarlið Íslands í leiknum -

Viktor Gísli Hallgrímsson, markvörður - 2 (11 varin skot - 42:11 mín.) Var ágætur í fyrri hálfleik þrátt fyrir að vörnin fyrir framan hann hafi verið afleit. En datt svo algjörlega niður í seinni hálfleik og var tekinn af velli. Sat full lengi á bekknum en kom inn á undir lokin. Varði alls ellefu skot, eða 27 prósent þeirra skota sem hann fékk á sig. Hefur verið full brokkgengur á mótinu og þetta var svo sannarlega ekki dagurinn hans Viktors.

Orri Freyr Þorkelsson, vinstri hornamaður - 4 (8 mörk - 53:53 mín.) Spilaði allan leikinn og fékk fullt af færum. Skoraði átta mörk en klikkaði á þremur færum. Var sterkur undir lokin og skoraði þá þrjú mörk, öll með skoti á nærstöngina.

Janus Daði Smárason, vinstri skytta - 2 (2 mörk - 38:43 mín.) Var agalegur í vörninni þrátt fyrir að vera að spila á móti rétthentum manni vinstra megin. Gerði nokkur slæm mistök í sókninni og skorti skynsemi á mikilvægum augnablikum. Alltof misjafn á mótinu.

Gísli Þorgeir Kristjánsson, leikstjórnandi - 5 (6 mörk - 31:49 mín.) Langbesti maður Íslands í dag og á mótinu. Skoraði sex mörk og gaf ellefu stoðsendingar. Sóknarleikurinn var ekki vandamálið í dag en Gísli hefði eflaust viljað gera betur í lokasókninni.

Ómar Ingi Magnússon, hægri skytta - 2 (3 mörk - 36:03 mín.) Slakur í vörninni og var eins og svo oft áður hikandi í sókninni. Viggó varð meira ágengt í leiknum. Ómar átti ágætan kafla í seinni hálfleik en maður gerir meiri kröfur til hans. Það geislar svo ekki beint af fyrirliðanum í öllu hans fasi inni á vellinum.

Óðinn Þór Ríkharðsson, hægri hornamaður - 3 (3 mörk - 56:26 mín.) Fékk ekki úr jafn miklu að moða og gegn Svíþjóð. Skilaði þremur mörkum og fiskaði svo mikilvægan ruðning í lokasókn Sviss.

Elliði Snær Viðarsson, línumaður - 3 (8 mörk - 42:11 mín.) Raðaði inn mörkum og skoraði meðal annars jöfnunarmark Íslands undir lokin. En varnarframmistaðan var ekki nógu og Elliði náði engum takti á þeim enda vallarins.

Ýmir Örn Gíslason, línumaður - 2 (0 mörk - 17:03 mín.) Hefur spilað stórvel á mótinu en var alltaf eftir á í leiknum í dag. Tapaði baráttunni maður gegn manni ítrekað og var í tómum vandræðum allan leikinn.

- Menn sem komu inn af bekknum í leiknum -

Arnar Freyr Arnarsson, línumaður - 1 (0 mark - 14:52 mín.) Átti afleita innkoma í fyrri hálfleik. Fiskaði einn brottrekstur en klikkaði á öllum þremur skotunum sem hann tók. Fékk svo ekkert við ráðið í vörninni. Hefur verið í landsliðinu í um áratug en það spurning hvort sú áskrift sé nú útrunnin.

Viggó Kristjánsson, hægri skytta - 4 (7/3 mörk - 24:10 mín.) Hélt uppteknum hætti og gegn Svíþjóð þótt Viggó hafi ekki átt sama glansleikinn í dag. Nýtti öll þrjú vítin sín og skoraði fjögur mörk utan af velli. Öflugur í hröðu miðjunni í fyrri hálfleik og hefði ef til vill mátt spila meira þótt hann hafi vissulega meiðst í leiknum gegn Svíþjóð. Hefur nýtt sínar mínútur á EM einstaklega vel.

Haukur Þrastarson, vinstri skytta - 2 (1 mark - 20:26 mín.) Skoraði eitt mark með frábæru skoti en lét annars lítið að sér kveða í sókninni. Var svo í sömu vandræðum og aðrir í vörninni.

Einar Þorsteinn Ólafsson, varnamaður - 3 (0 mörk - 21:37 mín.) Átti ekki sinn besta leik en vörn Íslands var mun sterkari með hann inni á vellinum en utan hans. Sýndi frumkvæði en var á köflum í vandræðum.

Björgvin Páll Gústavsson, markvörður - 1 (7:33 mín.) Eftir að Viktor fann engan takt í seinni hálfleik kom Björgvin inn á. Varði þrjú skot (27 prósent) en hefði eflaust viljað gera betur í nokkrum færum Svisslendinga. Átti svo tvö fáránleg skot yfir allan völlinn sem misstu marks á mikilvægum augnablikum. Slæmar ákvarðanir hjá reyndasta leikmanni Íslands.

Þorsteinn Leó Gunnarsson, vinstri skytta - (0 mörk - 28 sek.) Kom inn á í eina vörn og svo í lokasóknina.

Teitur Örn Einarsson, hægri hornamaður - (spilaði ekkert)

Bjarki Már Elísson, vinstri hornamaður - (spilaði ekkert)

Líkt og áður þá gefur íþróttadeild Vísis og Sýnar leikmönnum einkunnir fyrir frammistöðu sína.

Leikmenn fá einkunn á bilinu 1-6 með umsögn, en neðst í fréttinni má sjá hvað hver einkunn þýðir.

Útskýring á einkunnum

  • 6 - Heimsklassa frammistaða
  • 5 - Frábær frammistaða
  • 4 - Góð frammistaða
  • 3 - Sæmileg frammistaða - skilaði sínu
  • 2 - Ekki nógu góð frammistaða
  • 1 - Slakur leikur



Fleiri fréttir

Sjá meira


×