Fótbolti

FH selur Sigurð Bjart til Spánar

Sindri Sverrisson skrifar
Sigurður Bjartur Hallsson er vanur því að spila í svörtu og hvítu.
Sigurður Bjartur Hallsson er vanur því að spila í svörtu og hvítu. AD Merida

Sóknarmaðurinn Sigurður Bjartur Hallsson var í dag kynntur sem nýjasti liðsmaður spænska knattspyrnufélagsins AD Mérida.

Á vef Merida segir að Sigurður sé þegar byrjaður að æfa með liðinu. Kaupverðið er ekki gefið upp en samningur hans við félagið gildir til júní 2028 með möguleika á árs framlengingu.

Ljóst er að Sigurður Bjartur, sem er 26 ára gamall, skilur eftir sig stórt skarð fyrir skildi í Kaplakrika. 

Hann skoraði sextán mörk í Bestu deildinni á síðustu leiktíð, í 26 leikjum, og þar af sex mörk í fimm leikjum eftir skiptingu deildarinnar. Aðeins Patrick Pedersen skoraði fleiri mörk í deildinni í fyrra eða átján.

Mérida er í 11. sæti af 20 liðum í spænsku C-deildinni, eftir 21 umferð af 38, en á fína möguleika á að komast í umspil um sæti í B-deild.

Sigurður Bjartur er uppalinn hjá Grindavík en gekk svo í raðir KR fyrir tímabilið 2022, eftir 17 mörk í Lengjudeildinni sumarið áður, og hefur svo spilað með FH síðustu tvö tímabil.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×