Handbolti

Ís­land á þrjá af fjórum þjálfurum í undan­úr­slitunum á EM

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Alfreð Gíslason, Snorri Steinn Guðjónsson og Dagur Sigurðsson eru allir komnir með landsliðin sín alla leið í undanúrslit á Evrópumótinu í handbolta.
Alfreð Gíslason, Snorri Steinn Guðjónsson og Dagur Sigurðsson eru allir komnir með landsliðin sín alla leið í undanúrslit á Evrópumótinu í handbolta. EPA/Johan Nilsson

Þýskaland og Króatía tryggðu sér sæti í undanúrslitum á Evrópumótinu í handbolta í kvöld sem þýðir það að Ísland á þrjá af fjórum þjálfurum í undanúrslitaleikjum Evrópumótsins í handbolta ár.

Snorri Steinn Guðjónsson hafði stýrt íslenska landsliðinu inn í undanúrslitin fyrr í dag og í kvöld fóru þeir Alfreð Gíslason og Dagur Sigurðsson einnig með lið sín upp úr sínum milliriðli. Þetta er í fyrsta sinn í sögu stórmóta í handknattleik karla sem þrír þjálfara af fjórum í undanúrslitum koma frá sama landinu.

Það er því aðeins danska landsliðið, af þeim liðum sem spila um verðlaun á mótinu, sem er ekki þjálfað af Íslendingi sem er mögnuð staðreynd. Íslenskir þjálfarar hafa náð frábærum árangri í handboltanum undanfarin ár og er þetta Evrópumót enn eitt dæmið um það.

Króatar unnu 27-25 endurkomusigur á Ungverjum eftir að hafa verið undir stóran hluta leiksins. Króatar tryggðu sér þar með sigur í milliriðlinum en íslenska landsliðið endar í öðru sætinu. Dagur er að fara með króatíska liðið í undanúrslit á öðru stórmótinu í röð því liðið endaði í öðru sæti á síðasta heimsmeistaramóti.

Alfreð Gíslason stýrði á sama tíma þýska landsliðinu áfram eftir fjögurra marka sigur á Frökkum, 38-34, í úrslitaleik um sæti í undanúrslitum. Danir voru komnir áfram en þetta tap þýðir að Evrópumeistarar Frakka spila um fimmta sætið á þessu móti.

Alfreð er að fara með þýska landsliðið í undanúrslit á öðru Evrópumótinu í röð en liðið endaði í fjórða sætinu fyrir tveimur árum. Liðið fór alla leið í úrslitaleikinn á Ólympíuleikunum í París seinna sama ár en varð að sætta sig við silfrið.

Þetta er langbesti árangur Snorra Steins með íslenska landsliðið.

Þjóðverjar eru eins og er efstir í sínum milliriðli og mæta Íslendingum ef það breytist ekki. Danir geta hins vegar tryggt sér leik á móti Íslandi með því að vinna Norðmenn seinna í kvöld.

Það er þegar ljóst að íslenskir þjálfarar vinna að minnsta kosti tvenn verðlaun á þessu Evrópumóti og Dagur á nú möguleika á að gera aðra þjóð að Evrópumeisturum því þýska landsliðið varð Evrópumeistari undir hans stjórn árið 2016.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×