Handbolti

„Við erum að vinna í að fjölga miðum“

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Jón Halldórsson, formaður HSÍ, biður fólk um að fylgjast með heimasíðu og samfélagsmiðlum sambandsins fyrir upplýsingar um miðasölu.
Jón Halldórsson, formaður HSÍ, biður fólk um að fylgjast með heimasíðu og samfélagsmiðlum sambandsins fyrir upplýsingar um miðasölu. vísir / vilhelm

Jón Halldórsson, formaður HSÍ, vinnur hörðum höndum að því að útvega aðdáendum íslenska landsliðsins miða á úrslitaleiki Íslands á föstudag og sunnudag.

Jón ræddi miðamálin við Val Pál Eiríksson í kvöldfréttum Sýnar og sagði alla helstu hausa HSÍ vera að vinna í að redda fleiri miðum, en áður hefur komið fram að Ísland fái frekar fáa miða á úrslitahelgina.

„Það er stóra málið núna. Við erum að vinna í að fjölga miðum. Við erum ekki með marga miða eins og er en við erum með alla anga úti til að geta fjölgað miðum. Það kemur í ljós í kvöld, eftir því hvernig hinir leikirnir enda, hvernig það endar.“

Ísland mun mæta annað hvort Þýskalandi eða Danmörku í undanúrslitum á föstudag og spila síðan upp á annað hvort gull eða brons á sunnudag. 

Jón vonar innilega en þorir engu að lofa um að fleiri íslenskir aðdáendur bætist við hópinn í Herning í Danmörku.

„Vonandi náum við að hafa eitthvað miðaframboð, þannig að við getum flogið einni, tveimur, kannski þremur flugvélum út til okkar. En það er óvíst ennþá.“

Upplýsingar um miðasölu verða birtar á heimasíðu HSÍ og samfélagsmiðlum sambandsins.

„Það verður bara seinna í kvöld. Við biðjum fólk bara um að fylgjast með okkar heimasíðu og samfélagsmiðlum, ásamt Icelandair sem er að vinna þetta með okkur.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×