Handbolti

Engar hóp­ferðir Ís­lendinga til Herning

Sindri Sverrisson skrifar
Þúsundir Íslendinga fóru til Kristianstad og Malmö til að styðja íslenska liðið áfram í undanúrslitin en þeir þurfa að gera sér að góðu að fylgjast núna með í sjónvarpinu.
Þúsundir Íslendinga fóru til Kristianstad og Malmö til að styðja íslenska liðið áfram í undanúrslitin en þeir þurfa að gera sér að góðu að fylgjast núna með í sjónvarpinu. VÍSIR/VILHELM

Skortur á miðum gerir það að verkum að engar hópferðir verða frá Íslandi á undanúrslit Evrópumóts karla í handbolta í Herning á morgun.

Íslendingar bíða spenntir eftir undanúrslitaleiknum við Danmörku annað kvöld og margir reyna nú allt sem þeir geta til að ná sér í miða.

Hins vegar er löngu uppselt í höllina í Herning og ekki hægt að fá neina miða núna. Mótshaldarar ábyrgjast aðeins að 100 miðar séu fráteknir fyrir hverja þjóð af þeim fjórum sem spila í undanúrslitum og þeir miðar dreifast væntanlega að mestu á fjölskyldur leikmanna, styrktaraðila og starfsfólk HSÍ.

Handknattleikssambandið segir í tilkynningu að ekki verði hægt að bjóða upp á hópferðir frá Íslandi til Herning, þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir til að fá miða. Ekki sé heldur hægt að nálgast staka miða hjá sambandinu.

Tilkynningu HSÍ má lesa hér að neðan:

Handknattleikssamband Íslands vill upplýsa að því miður verður ekki hægt að bjóða upp á hópferðir frá Íslandi á undanúrslitaleiki Evrópukeppninnar sem fram fara í Herning.

Ástæðan er skortur á miðum, sem gerir HSÍ og Icelandair ókleift að skipuleggja hópferðir að þessu sinni. Þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir við að fá miða frá mótshöldurum hefur það ekki gengið eftir, þar sem löngu er uppselt á úrslitahelgina. Ekki er heldur hægt að nálgast staka miða hjá HSÍ.

HSÍ hvetur þjóðina til að safnast saman fyrir leikina, senda strákunum okkar sterka strauma til Herning og mynda góða stemmingu heima fyrir á meðan leikjunum stendur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×