Handbolti

Ís­land næst­besta sóknar­lið EM en því miður er Dan­mörk best

Sindri Sverrisson skrifar
Janus Daði Smárason hefur nýtt skotin sín afar vel á EM og Ísland er næstbesta sóknarliðið.
Janus Daði Smárason hefur nýtt skotin sín afar vel á EM og Ísland er næstbesta sóknarliðið. vísir/Vilhelm

Það má búast við fullt af mörkum og skemmtilegum leik þegar Ísland og Danmörk mætast annað kvöld, í undanúrslitum EM í handbolta, miðað við tölfræðiúttekt sérfræðings EHF.

Strákarnir okkar hafa nefnilega verið næstbesta sóknarlið mótsins, samkvæmt þessari úttekt, og eina liðið sem slegið hefur þeim við er einmitt Danmörk.

Julian Rux, sérfræðingur EHF, tók saman sóknarnýtingu liðanna á EM. Liðin spila auðvitað mishraðan handbolta og fá því mismargar sóknir, en í úttektinni skoðaði Rux hvernig liðin stæðu sig að meðaltali í hverjum 50 sóknum, svo samanburðurinn yrði sanngjarn. Þá aðlagaði hann niðurstöðuna út frá styrkleika mótherja liðanna hverju sinni, og tók svokallaðar „ruslmínútur“ í lok ójafnra leikja út.

Niðurstaðan er sú að Ísland skorar 32 mörk úr 50 sóknum og er í næstefsta sæti. Aðeins Danmörk gerir betur, með 33,5 mörk.

Myndin sýnir hvernig liðin standa sig í vörn og sókn. Lóðrétti ásinn sýnir frammistöðu í vörn en lárétti ásinni, frá vinstri til hægri, sýnir sóknarnýtinguna og þar er Ísland í 2. sæti.EHF

Hin liðin í undanúrslitunum, Íslendingastýrðu lið Þýskalands og Króatíu, koma talsvert á eftir með um 28-29 mörk í 50 sóknum.

Það sem gerir íslenska sóknarleikinn svo skilvirkan, segir Rux, er að liðið passar svo vel upp á boltann. Liðið tapar boltanum bara 7,2 sinnum miðað við 50 „aðlagaðar“ sóknir, aðeins þrjú lið tapa boltanum sjaldnar, og það er ekki sjálfgefið miðað við leikstíl liðsins. Þá er skotnýtingin góð eða 69,3%, rétt á eftir Slóveníu (70,6%) og Danmörku (71,9%) sem er efst.

Janus Daði, Viggó, Ómar Ingi og Gísli eru meðal efstu manna þegar skotnýtingin hjá skyttum og miðjumönnum er skoðuð. Danir eiga þar tvo menn meðal þrettán efstu.EHF

Íslenska vörnin í tíunda sæti

Ísland stendur hins vegar verst undanúrslitaliðanna þegar sjónum er beint að varnarleiknum. Þar hjálpar auðvitað ekki til að hafa fengið á sig 38 mörk gegn Svisslendingum sem ekki unnu leik í milliriðlakeppninni.

Íslenska vörnin er í 10. sæti á mótinu samkvæmt úttekt EHF, og fær á sig 27,2 mörk í 50 sóknum. Heims- og Ólympíumeistarar Danmerkur eru í 2. sæti með sína vörn sem fær á sig 25,9 mörk.

Það er því, eins og öllum er svo sem ljóst, afar erfitt verkefni fram undan hjá strákunum okkar annað kvöld þegar í húfi verður fyrsti úrslitaleikur Íslands á Evrópumóti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×