Skoðun

Björg fyrir Reyk­víkinga

Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir og Þórey Vilhjálmsdóttir skrifa

Flest höfum við skoðun á Reykjavík - borginni okkar því snertifletirnir eru endalausir. Göturnar, skólarnir, leikskólarnir, grænu svæðin, umferðin, skipulagið og þjónusta borgarinnar eru allt þættir sem móta daglegt líf okkar íbúanna. Þegar hlutirnir ganga vel tökum við varla eftir því. En þegar þeir ganga illa finnum við strax fyrir því.

Ef þú ert með skoðun, og þá sérstaklega ef þér finnst að hlutirnir gætu verið betri, þá er mikilvægt að taka þátt og hafa áhrif. Ein besta leiðin til þess er að taka þátt í prófkjörum stjórnmálaflokkanna í Reykjavík. Það er einmitt það sem Björg Magnúsdóttir gerði, en hún býður sig fram til þess að leiða lista Viðreisnar í Reykjavík í borgarstjórnarkosningum í vor.

Björg er rétta manneskjan í verkið. Hún þekkir þjónustu borgarinnar úr eigin lífi, verandi með börn á öllum skólastigum og eiginlega ofurnotandi kerfisins. Þá bætist við dýrmæt reynsla úr fjölmiðlum og ekki síst reynsla sem aðstoðarmaður borgarstjóra, þar sem hún fékk innsýn í rekstur borgarinnar og hversu margt má gera betur þar.

Björg hefur allt sem þarf til að knýja fram breytingar. Hún er metnaðarfull, ástríðufull og leggur sig alla fram í því sem hún tekur sér fyrir hendur. Það sem hún gerir, gerir hún vel.

Í stjórnmálum skiptir eigin sannfæring, ástríða og skýr sýn öllu máli. Við þekkjum það sjálfar eftir störf á síbreytilegum vettvangi stjórnmálanna. Þegar Björg talar, veit maður að hún meinar það sem hún segir. Hún er heiðarleg, trúir á málefnin og berst af einlægni fyrir þeim.

Björg er sannarlega framtíðarleiðtogi með fjölbreytta reynslu af því að vinna með fólki - en það er einmitt það sem stjórnmál snúast um; fólk.

Það þarf að gera hlutina öðruvísi í borgarstjórn Reykjavíkur. Það þarf nýja kynslóð inn í Ráðhúsið, fólk með hugrekki til að breyta því sem þarf að breyta og gera góða borg enn betri. Spurningin er hverjum við treystum til þess verks.

Við treystum Björgu Magnúsdóttur og styðjum hana heilshugar í leiðtogaprófkjöri Viðreisnar í Reykjavík á laugardaginn.

Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir er fv. borgarfulltrúi og framkvæmdastjóri Kara Connect og Þórey Vilhjálmsdóttir er Proppé stofnandi og framkvæmdastjóri Öldu




Skoðun

Sjá meira


×