Handbolti

„Aðrir sjá um að tuða yfir því“

Valur Páll Eiríksson skrifar
Bjarki Már Elísson segir laser fókus vera á verkefni dagsins, þrátt fyrir allskyns skipulagsvesen.
Bjarki Már Elísson segir laser fókus vera á verkefni dagsins, þrátt fyrir allskyns skipulagsvesen. VÍSIR/VILHELM

Þrátt fyrir misheppnaða rútuferð, aukið álag, miðamál í ólestri er Bjarki Már Elísson helst spenntur fyrir því að takast á við Dani í undanúrslitum á EM í dag. Það hefur ekkert upp á sig að spá í hitt bullið.

„Það er lítið annað í stöðunni en að vera léttur. Ég sé það á strákunum að þeir eru mjög einbeittir. Nú er bara laser fókus á verkefnið,“ segir Bjarki Már í samtali við Vísi eftir að landsliðið mætti til Herning í Danmörku í gær.

Klippa: Nokkur skipulagsklúður en Bjarki nennir ekki að spá í það

Strákarnir voru þá nýlega lentir í danska bænum eftir um fjögurra og hálfs klukkutíma rútuferð frá Malmö. Smá vesen var á ferðalaginu þar sem íslenska liðinu var úthlutuð minni rúta en landsliðum Króatíu og Svíþjóðar sem fóru sömu leið, frá sama hóteli og Ísland í Malmö.

Níu starfsmenn HSÍ þurftu að fara með öðrum leiðum frá Malmö til Herning vegna þess klúðurs. En Bjarki segir leikmenn lítið nenna að láta utanaðkomandi aðstæður hafa áhrif á sig.

„Ferðalagið gekk allt í lagi. Við tókum rútu í morgun, lögðum af stað um 10 og lentum um 14:30. Þetta er kannski ekki óskastaða en við flestir sem höfum verið að spila erlendis þekkjum lengri rútuferðir, svo við erum vanir þessu,“ segir Bjarki Már.

Aðrir tuða yfir því

Sömuleiðis sé ekki ástæða til að láta aukið leikjaálag og ferðalag, sem Danir þurfa ekki að glíma við, trufla sig. Dagur Sigurðsson, þjálfari króatíska liðsins, hefur vaðið á súðum hér í Herning og lét hæstráðendur EHF heyra það á blaðamannafundi í gær.

„Það er bara ekki augnablikið núna að spá í það, sérstaklega ekki fyrir okkur leikmenn. Við eigum að reyna að gíra okkur í gang, æfa hérna, svitna og einbeita okkur að leiknum á morgun. Ég held að það sjái aðrir um að tuða yfir því,“ segir Bjarki Már.

Það sem hafi ef til vill mest áhrif séu miðamálin. Ekki komust allir fjölskyldumeðlimir leikmanna að, þar sem Bjarki er ekki undanskilinn.

„Þetta hefur kannski ekki bein áhrif. Auðvitað hefði verið gott að hafa fulla höll af Íslendingum. Mér finnst þetta bara leiðinlegt. Ég náði ekki að græja miða fyrir alla sem standa mér næst. Mér finnst það bara fúlt. Það hefði verið gaman að fá fullt af Íslendingum hérna. En, aftur, við höfum ekki stjórn á því. Þannig er bara staðan,“ segir Bjarki Már.

Fleira kemur fram í viðtalinu sem má sjá í spilaranum.

Ísland mætir Danmörku klukkan 19:30 í Boxen í Herning í kvöld. Íþróttateymi Sýnar mun fylgja landsliðinu eftir og koma stemningunni vel til skila í fréttatímum Sýnar sem og á Vísi í allan dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×