Innlent

Burðar­dýr hlaut þungan dóm fyrir vökvasmygl

Árni Sæberg skrifar
Maðurinn var með þrjá lítra af kókaínvökva í farteskinu við komuna til landsins.
Maðurinn var með þrjá lítra af kókaínvökva í farteskinu við komuna til landsins. Vísir/Vilhelm

Valentin Jemeljanov, Litái á fertugsaldri, hefur verið dæmdur til þriggja og hálfs árs fangelsisvistar fyrir að flytja inn þrjá lítra af kókaíni á vökvaformi. Úr vökvanum mætti framleiða 3,5 kíló af kókaíni með styrkleika upp á 53 prósent. 

Í dómi Héraðsdóms Reykjaness, sem kveðinn var upp á þriðjudag, segir að maðurinn hafi tekið kókaínvökvann með sér um borð í flugvél á leið frá Riga í Lettlandi til Íslands, falinn í fjórum flöskum í farangri hans.

Hann hafi játað brot sín skýlaust fyrir dómi og krafist vægustu refsingar sem lög leyfa. Þá segir að af fyrirliggjandi gögnum yrði ekki ráðið að maðurinn hafi verið eigandi nefndra fíkniefna eða tekið þátt í skipulagningu á kaupum og innflutningi þeirra til Íslands með öðrum hætti en þeim að samþykkja að flytja efnin til landsins gegn greiðslu.

Litið hafi verið til þessa við ákvörðun refsingar. Refsing hans væri hæfilega ákveðin þriggja og hálfs árs óskilorðsbundin fangelsisvist. Þá greiði Valentin allan sakarkostnað, 1,5 milljónir króna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×