Skoðun

Nokkur orð um rekstrar­kostnað

Arnar Már Jóhannesson og Ásgerður Ágústsdóttir skrifa

Talsverð umræða hefur verið um markaðskostnað og söluþóknanir vátryggingamiðlana undanfarnar vikur og mánuði. Undirrituð vilja af því tilefni tína til nokkra fróðleikspunkta um þóknanir vátryggingamiðlana og rekstrarkostnað íslenskra lífeyrissjóða.

Þrjár mikilvægar staðreyndir 

Það er ekkert launungarmál að vátryggingamiðlanir fá þóknun frá vátryggingafélögum fyrir að koma á viðskiptasambandi á milli tryggingataka og vátryggingafélags. Í þessu samhengi þarf að hafa eftirfarandi hluti í huga.

  1. Kostnaður vegna sölu og markaðsstarfs er innifalinn í öllum vörum og þjónustu sem boðin eru frjálsum markaði. Vátryggingasamningar eru engin undantekning þar á.
  2. Vátryggingamiðlanir verða að vanda til verka við gerð samninga við viðskiptavini, til dæmis vegna þess að þær þurfa að endurgreiða þóknanir ef tryggingataki ákveður að segja upp samningi innan ákveðins tíma. Þessi ábyrgð vátryggingamiðlana varir í mörg ár. Þarna fara saman hagsmunir vátryggingataka, vátryggingafélags og vátryggingamiðlana.
  3. Eftir að samningur er kominn á þjónustar vátryggingamiðlun samninginn og er milligönguaðili í samskiptum vátryggingataka og vátryggingafélags án þess að greidd sé sérstök þóknun fyrir þá þjónustu.

Séreignarlífeyrir: Skynsamleg ráðstöfun

Nokkuð almenn samstaða er í þjóðfélaginu um að samningar um séreignarlífeyri og viðbótarlífeyrissparnað séu skynsamleg ráðstöfun. Tímalengd samnings og ávöxtun til langtíma skiptir vitaskuld miklu máli um lokaniðurstöðu. Hin óháða þjónusta Aurbjörg á aurbjorg.is framkvæmir meðal annars samanburð á kjörum fjármálaþjónustu, til dæmis hvað snertir líftryggingar og séreignarsparnað. Vert er að hvetja almenning til að kynna sér þann samanburð og hafa þann fyrirvara á að ávöxtun sveiflast og að árangur í fortíð er aldrei loforð um farsæld í framtíð.

Kostnaður liggur fyrir í upphafi

Á það hefur verið bent að kostnaður við samninga um viðbótarlífeyrissparnað erlendra vörsluaðila – kostnaður sem ákveðinn er í upphafi samnings – er jafnan mestur fyrstu 5 ár samningstímans. Það er hentug högun fyrir flesta samningstaka. Ástæðan er sú að laun samningshafa eru oftast nær lægri í upphafi þar sem samningstaki hækkar með árunum í launum, bæði vegna almennra launahækkana og hefðbundins framgangs í starfi. Heildarsamningskostnaður ætti alltaf að liggja fyrir með gegnsæjum hætti við samningsgerð og vera bindandi fyrir allan líftíma samningsins.

Aukinn rekstrarkostnaður lífeyrissjóða

Kostnaður við rekstur íslenska lífeyrissjóðskerfisins, þar með talið sölu- og markaðsstarf, hefur á síðustu árum aukist töluvert meira heldur en aukning á mótteknum iðgjöldum. Þetta kom fram á Alþingi í júní 2025 í svari efnahags- fjármála- og efnahagsráðherra, Daða Más Kristóferssonar, við fyrirspurn Sigurðar Inga Jóhannssonar alþingismanns um rekstrarkostnað íslenskra lífeyrissjóða.

Áhyggjuefni?

Í svari ráðherra kom fram að á síðustu 5 árum hefur rekstrarkostnaður lífeyrissjóðanna aukist um 69% á sama tíma og iðgjöld hafa hækkað um 46%. Á árinu 2024 voru greidd iðgjöld til alls kerfisins um 400 milljarðar króna, en rekstrarkostnaður kerfisins þetta sama ár var um 45 milljarðar króna, sem er um 11% af iðgjöldum. Að sjálfsögðu er kostnaður vegna sölu og markaðsstarfs innifalinn í öllum vörum og þjónustu í framboði á markaði, en þessi aukning á kostnaði í íslenska lífeyrissjóðakerfinu gæti þó valdið einhverjum sjóðsfélögum áhyggjum.

Að fjárfesta hluta sparnaðar erlendis

Flestir Íslendingar eru með eignir sínar nær alfarið bundnar við íslenskt efnahagslíf og íslenska krónu, til að mynda fasteignir, lausafé og skyldulífeyri. Það er aftur á móti nokkuð óumdeild og vinsæl nálgun í fjárfestingarfræðum að dreifa eggjunum í mismunandi körfur. Íslenskt efnahagslíf hefur sögulega verið mjög sveiflukennt og íslenska krónan sömuleiðis. Mörgu fólki hefur því þótt skynsamlegt gegnum árin að koma hluta af heildareignum sínum – til dæmis viðbótarlífeyrissparnaði – fyrir í stöðugra efnahagsumhverfi á alþjóðlegum vettvangi.

Arnar Már er stjórnarformaður Tryggingar og ráðgjöf ehf. Ásgerður er framkvæmdastjóri fyrirtækisins.




Skoðun

Sjá meira


×