Handbolti

Vilja þagga niður í 14 þúsund Dönum

Valur Páll Eiríksson skrifar
Gidsel og félagar fá mikinn stuðning úr stúkunni í Herning.
Gidsel og félagar fá mikinn stuðning úr stúkunni í Herning. Sina Schuldt/picture alliance via Getty Images

Íslendingar verða í miklum minnihluta þegar strákarnir okkar mæta Dönum í undanúrslitum á EM karla í handbolta í Herning í kvöld. Markmið strákanna okkar er að þagga niður í þúsundum stuðningsfólks.

Íslendingar verða ekki mikið meira en 200 á leik kvöldsins í höll sem tekur tæplega 15 þúsund manns í sæti. Danir verða þar í miklum meirihluta og munu styðja sína menn til sigurs.

Klippa: Vilja þagga niður í 14 þúsund Dönum

Besti leikur Íslands á þessu móti fór fram við svipaðar aðstæður, þegar þeir unnu Svía á þeirra heimavelli í Malmö með átta marka mun á sunnudaginn var.

Þá voru að vísu fleiri íslenskir stuðningsmenn í stúkunni og þeir eignuðu sér hreinlega höllina. Nú er markmið strákanna okkar að endurtaka leikinn og þagga niður í heimamönnum.

„Já, það er rétt hjá þér. Það væri auðvitað óskandi. En það þarf allt að smella. Það small allt á móti Svíum. Það er vonandi að það geri það líka gegn Dönum,“ segir Gísli Þorgeir Kristjánsson og liðsfélagi hans Bjarki Már Elísson er á sama máli.

„Það er auðvitað markmiðið. Það er verðugt en við mætum með hökuna upp, kassann úti og leggjum allt í þetta,“ segir Bjarki sem trúir því að Ísland geti komist í úrslit.

„Ég hef trú. Í öll þessi tíu skipti hef ég alltaf haft trú á því að við værum að fara í úrslit og það er ekkert breytt núna.“

Snorri Steinn Guðjónsson er á sama máli. Allt þurfti að smella svo af því verði.

„Það væri rosa gott og gaman. Svipuð frammistaða væri mjög vel þegin. En ég held við þurfum að taka eitt skref í viðbót og vera enn betri. Að kalla fram enn betri hliðar á okkar leik. Ég held það sé alveg innistæða fyrir því. Auðvitað þurfum við að kafa djúpt en við höldum að við getum gert það,“ segir Snorri Steinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×