Erlent

Fjöldi á­sakana um brot gegn barn­ungum stúlkum

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Elon Musk og Donald Trump eru báðir nefndir margítrekað á nafn í nýjum skjölum tengdum máli barnaníðingsins Jeffrey Epstein.
Elon Musk og Donald Trump eru báðir nefndir margítrekað á nafn í nýjum skjölum tengdum máli barnaníðingsins Jeffrey Epstein. EPA

Donald Trump Bandaríkjaforseti er nefndur á nafn mörghundruð sinnum í nýbirtum skjölum tengdum máli Jeffrey Epstein barnaníðings og auðkýfings. Röð ásakana á hendur Trump um þátttöku í glæpum Epstein bárust alríkislögreglunni, þó með þeim fyrirvara að ásakanirnar virðast hafa borist í aðdraganda forsetakosninganna 2020.

Um er að ræða lista sem gerður var innanhúss hjá alríkislögreglunni FBI í ágúst 2020, skömmu fyrir forsetakosningarnar sem Trump beið ósigur í. Listinn felur í sér ásakanir á hendur forsetanum um þátttöku í níðingsverkum Epstein í mörgum liðum en skjalið er þó búið að ritskoða þannig að ekki er nokkur leið til að sannreyna þær.

Grófar ásakanir um brot gegn barnungum stúlkum

Athygli hefur vakið að skömmu eftir að umgangur dagsins af gögnum málsins birtist var þetta tiltekna skjal gert óaðgengilegt á heimasíðu dómsmálaráðuneytisins. Ásakanirnar sem birtast í skjalinu eru mjög ógeðfelldar. Trump er sakaður um að hafa brotið á stúlkum niður í þrettán ára aldur.

Dómsmálaráðuneyti Bandaríkjanna og Hvíta húsið sömuleiðis benda á í yfirlýsingu að í skjalinu, og öðrum, birtist ásakanir sem bárust í aðdraganda forsetakosninga og að því fyrrnefnda sé skylt að birta öll þessi gögn og alríkislögreglunni sömuleiðis að halda utan um þau.

„Svo því sé haldið til haga, eru ásakanirnar tilhæfulausar og rangar. Byggðu þær á snefli af sannleika hefði þeim án efa verið þegar beitt gegn Trump forseta,“ segir í yfirlýsingunni.

Elon Musk talsvert nánari en vitað var

Meðal skjalanna sem birtust í dag eru einnig tölvupóstar sem ýja að því að Elon Musk, auðkýfingur og fyrrverandi samstarfsmaður Bandaríkjaforseta, hafi átt talsvert nánara samband við Epstein en hann hefur viljað gangast við.

Í tölvupóstum á árunum 2012 og 2013 ræddu þeir vinalega saman og skipulögðu ferð Musk til eyjunnar alræmdu Little St. James sem þó virðist sem ekkert hafi orðið af.

„Verð á Bresku Jómfrúareyjum/Sankti Barts-svæðinu yfir hátíðirnar. Er hentugt að ég komi í heimsókn?“ skrifar Musk 13. desember 2013.

„Hvaða dag sem er 1. til 8. Spilaðu það bara eftir eyranu. Alltaf pláss fyrir þig,“ svaraði Epstein.

Þessum samskiptum fylgir röð tölvupósta fram og til baka þar sem smáatriði eru útrædd og það ákveðið að Musk komi í heimsókn 2. janúar. Að lokum segist Epstein hafa þurft að dvelja lengur í New York en til stóð og því varð ekkert úr heimsókninni.

„Slæmar fréttir. Dagskráin heldur mér því miður í New York. Ég hlakkaði mikið til að fá að verja loksins tíma með þér þar sem ekkert væri fyrir stafni nema gaman. Þannig að ég er mjög svekktur. Vonandi getum við náð saman í náinni framtíð,“ skrifaði Epstein.

Ekki er enn ljóst hvort slík heimsókn hafi nokkurn tímann farið fram.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×