Viðsnúningur í Njarðvík Njarðvíkingar hafa snúið dæminu við í fyrsta leiknum við Skallagrím í úrslitum Iceland Express deildarinnar, því þeir hafa nú 11 stiga forystu þegar flautað hefur verið til hálfleiks 43-32. Skallagrímur skoraði aðeins 9 stig í öðrum leikhluta. Jeb Ivey er stigahæstur heimamanna með 11 stig, en Axel Kárason og George Byrd hafa skorað 8 stig hvor fyrir gestina úr Borgarnesi. Leikurinn er í beinni útsendingu á Sýn. Sport 8. apríl 2006 16:38
Skallagrímur yfir eftir fyrsta leikhluta Skallagrímur hefur yfir 23-19 eftir fyrsta leikhluta í fyrsta leik úrslitaeinvígisins við Njarðvík í Iceland Express-deild karla í körfubolta. Leikurinn er í beinni útsendingu á Sýn þar sem Svali Björgvinsson og Friðrik Ingi Rúnarsson lýsa leiknum af mikilli innlifun, dýpt og þunga. Sport 8. apríl 2006 16:18
Skallagrímur í úrslit Skallagrímur er kominn í úrslit Iceland Express-deild karla í körfubolta eftir frækinn sigur á Keflvíkingum í oddaleik í Keflavík í kvöld 84-80. Þetta er sannarlega sögulegur sigur fyrir Val Ingimundarson þjálfara Skallagríms, sem bar þarna sigurorð af yngri bróður sínum Sigurði Ingimundarsyni, þjálfara Keflavíkur. Leikurinn var æsispennandi í lokin, en Keflvíkingar gerðu dýr mistök á lokasprettinum og voru í raun langt frá sínu besta þegar allt var undir í oddaleiknum í kvöld. Sport 6. apríl 2006 20:56
Rafmögnuð spenna í Keflavík Staðan í leik Keflavíkur og Skallagríms að loknum þriðja leikhluta er 61-60 fyrir gestina úr Borgarnesi, en heimamenn hafa heldur betur spýtt í lófana í síðari hálfleik eftir að hafa verið 14 stigum undir í hálfleik. Þær verða því væntanlega æsilegar síðustu tíu mínúturnar í leiknum, þar sem ræðst hvort liðið mætir Njarðvíkingum í úrslitum. Sport 6. apríl 2006 20:31
Skallagrímur leiðir í hálfleik Skallagrímur hefur nokkuð óvænta forystu í Keflavík í oddaleik liðanna í undanúrslitum Iceland Express-deildar karla í körfubolta. Staðan í hálfleik er 42-28 gestunum í vil, en heimamenn hafa verið langt frá sínu besta það sem af er leiks. AJ Moye hefur skorað 12 stig fyrir Keflavík, en Hafþór Gunnarsson er kominn með 14 stig hjá Skallagrími - öll í fyrsta leikhlutanum og Pétur Guðmundsson hefur skorað 9 stig. Þá er George Byrd búinn að hirða 15 fráköst. Leikurinn er í beinni útsendingu á Sýn. Sport 6. apríl 2006 19:56
Þór í úrvalsdeild Körfuknattleikslið Þórs frá Þorlákshöfn vann sér í gærkvöldi sæti í Iceland-Express deildinni á næstu leiktíð þegar liðið bar öðru sinni sigurorð af Breiðablik í umspili um laust sæti á meðal þeirra bestu. Lokatölur í gær urðu 65-60 fyrir gestina úr Þorlákshöfn sem fögnuðu gríðarlega í leikslok. Sport 5. apríl 2006 07:00
Samningur Herberts ekki endurnýjaður Nú er ljóst að KRingar munu ráða nýjan þjálfara til að taka við úrvalsdeildarliði félagsins næsta vetur því í dag tilkynnti félagið að samningur Herberts Arnarssonar yrði ekki endurnýjaður. Herbert hefur stýrt KR í tvö ár en liðið hefur ekki náð að komast í úrslitin undir hans stjórn. Sport 4. apríl 2006 16:30
Njarðvíkingar komnir í úrslit Njarðvíkingar tryggðu sér í kvöld sæti í úrslitum Iceland Express-deildar karla í körfuknattleik þegar liðið lagði KR-inga í vesturbænum 90-85 í sveiflukenndum leik. Njarðvíkingar höfðu yfir í hálfleik 45-42. Njarðvík vann því einvígið 3-1 og mætir annað hvort Keflvíkingum eða Skallagrími í úrslitum. Sport 3. apríl 2006 21:49
Skallagrímur knúði fram oddaleik Skallagrímur vann í kvöld frækinn sigur á Keflavík á heimavelli sínum Fjósinu í Borgarnesi 94-85 og því verður hreinn úrslitaleikur í Keflavík. Heimamenn voru fimm stigum undir fyrir lokaleikhlutann en tóku öll völd á síðustu tíu mínútunum, þar sem Keflvíkingar skoruðu aðeins átta stig. Sport 3. apríl 2006 21:40
Keflvíkingar yfir eftir þriðja leikhluta Keflvíkingar hafa fimm stiga forystu gegn Skallagrími í Borgarnesi þegar þriðji leikhluta er lokið og eru því tíu mínútum frá því að tryggja sér sæti í úrslitunum. Í vesturbænum eru Njarðvíkingar í góðri stöðu gegn KR og hafa yfir fyrir lokaleikhlutann. Sport 3. apríl 2006 21:16
Keflavík yfir í hálfleik Keflvíkingar hafa yfir 50-48 í hálfleik gegn Skallagrími í fjórða leik liðanna í undanúrslitaeinvíginu á Íslandsmótinu í körfuknattleik. Í vesturbænum hafa KRingar yfir 45-42 gegn Njarðvík í hálfleik. Sport 3. apríl 2006 20:45
Skallagrímur yfir eftir fyrsta leikhluta Skallagrímur hefur yfir 23-22 eftir fyrsta leikhluta í fjórða leik liðanna í Borgarnesi í undanúrslitum Íslandsmótsins í körfubolta en leikurinn er í beinni útsendingu á Sýn. Þá hafa Njarðvíkingar yfir 19-16 gegn KR eftir fyrsta leikhlutann í leik þeirra í DHL-höllinni. Sport 3. apríl 2006 20:22
Skallagrímur - Keflavík í beinni á Sýn Fjórða viðureign Skallagríms og Keflavíkur í undanúrslitum Iceland Express-deildar karla í körfubolta verður sýnd í beinni útsendingu á Sýn í kvöld og hefst útsendingin klukkan 19:50. Keflvíkingar hafa yfir 2-1 í einvíginu og geta því tryggt sér sæti í úrslitunum með sigri í kvöld. Þess má geta að fylgst verður með gangi mála í leik KR og Njarðvíkur í útsendingu Sýnar, en sá leikur hefst á sama tíma. Sport 3. apríl 2006 15:53
Njarðvík lagði KR Njarðvíkingar eru komnir með forystu í einvígi sínu við KR í undanúrslitum Íslandsmóts karla í körfuknattleik eftir 91-80 sigur í þriðja leik liðanna í Njarðvík í kvöld. Njarðvíkingar geta því tryggt sér farseðilinn í úrslitin með sigri í fjórða leiknum sem fer fram á heimavelli KR. Sport 31. mars 2006 21:47
Þriðji leikur Njarðvíkur og KR í kvöld Njarðvík og KR eigast við í Njarðvík í kvöld í undanúrslitaeinvíginu um Íslandsmeistaratitilinn í körfuknattleik. Liðin hafa unnið hvort sinn leikinn og munu KRingar eflaust vilja velgja heimamönnum undir uggum í Njarðvík í kvöld eftir góðan sigur á heimavelli sínum í síðasta leik. Leikurinn hefst klukkan 19:15. Sport 31. mars 2006 17:45
Íslandsmeistarabragur á Keflavík Keflvíkingar settu upp sannkallaða sýningu á heimavelli sínum í Sláturhúsinu í gær þegar Skallagrímur var í heimsókn. Heimamenn fóru á kostum og unnu mjög sannfærandi 129-79 sigur og leiða einvígið 2-1. Sport 31. mars 2006 10:05
Keflavík valtaði yfir Skallagrím Keflvíkingar hafa náð forystu í undanúrslitaeinvígi sínu við Skallagrím 2-1 eftir 129-79 sigur á heimavelli sínum í þriðja leiknum í kvöld. AJ Moye skoraði 37 stig fyrir Keflavík en Jovan Zdravevski skoraði 19 stig fyrir Skallagrím. Keflvíkingar skoruðu 19 þriggja stiga körfur í leiknum. Næsti leikur fer fram í Borgarnesi og þar geta Keflvíkingar tryggt sér sæti í úrslitunum. Sport 30. mars 2006 21:35
Keflavík yfir í hálfleik Keflvíkingar hafa yfir 63-43 í hálfleik í þriðja leik sínum gegn Skallagrími í undanúrslitum Íslandsmótsins í körfuknattleik, en leikurinn fer fram í Keflavík. Jafnræði var á með liðunum eftir fyrsta leikhlutann, en pressuvörn Keflvíkinganna virtist slá gestina út af laginu í öðrum leikhlutanum. AJ Moye hjá Keflavík hefur verið besti leikmaður vallarins og er kominn með yfir 20 stig í fyrri hálfleiknum. Sport 30. mars 2006 20:13
KR-ingar teknir í karphúsið Njarðvík vann öruggan sigur á KR í fyrsta leik þeirra í undanúrslitaeinvíginu í Iceland-Express deild karla en leikurinn var í beinni útsendingu á Sýn. Herbert Guðmundsson þjálfari KR baðst afsökunar á slakri frammistöðu sinna manna sem töpuðu stórt, 101-65. Sport 26. mars 2006 16:43
Njarðvík langt yfir í hálfleik Njarðvíkingar eru á góðri leið með að tryggja sér sigur í fyrsta leik undanúrslitaeinvígisins gegn KR í Iceland Express deild karla. Þeir hafa átján stigum fyrir í hálfleik, 47-29, og hafa borið höfuð og herðar yfir KR-inga sem þurfa að spýta verulega í lófana ef þeir ætla sér að stela sigrinum í Ljónagryfjunni í Njarðvík. Sport 26. mars 2006 15:44
Njarðvík-KR í beinni á Sýn klukkan 15 Vísir.is minnir alla á beina útsendingu Sýnar frá stórleik Njarðvík og KR í undanúrslitum Iceland-Express deildar karla í körfubolta. Leikurinn hefst klukkan 15.00 en útsending Sýnar skömmu áður. Keflavík vann í gær góðan sigur á Skallagrímsmönnum í hinni undanúrslitaviðureigninni. Sport 26. mars 2006 14:06
Keflvíkingar lögðu Skallagrím Keflvíkingar lögðu Borgnesinga í dag í fyrsta leik liðanna í undanúrslitum Iceland Express deildar karla í körfuknattleik 97-82. Keflavík hefur því náð 1-0 forystu í einvíginu og næsti leikur fer fram í Borgarnesi. Sport 25. mars 2006 18:14
KR í undanúrslitin KRingar eru komnir í undanúrslit Íslandsmótsins í körfuknattleik eftir frækinn sigur á Snæfelli í rafmögnuðum leik í Vesturbænum 67-64 í kvöld. Skarphéðinn Ingason skoraði 16 stig fyrir KRinga og Fannar Ólafsson 15, en Igor Beljanski skoraði 17 stig fyrir Snæfell. Sport 21. mars 2006 21:48
KR einu stigi yfir fyrir lokaleikhlutann Leikur KR og Snæfells í DHL-höllinni er enn í járnum og nú hafa heimamenn eins stigs forystu 50-49 þegar aðeins fjórði leikhlutinn er eftir, en það lið sem tapar í kvöld er komið í sumarfrí. Sport 21. mars 2006 21:19
Allt í járnum í Vesturbænum Nú er kominn hálfleikur í viðureign KR og Snæfells í oddaleik í fyrstu umferð úrslitakeppninnar í körfubolta og staðan er jöfn 35-35. Snæfell hafði betur framan af en heimamenn hafa náð að jafna leikinn með mikilli baráttu. Jón Ólafur Jónsson hefur skorað 10 stig fyrir Snæfell, en Skarphéðinn Ingason og Fannar Ólafsson hafa skorað 8 stig hvor fyrir KR. Sport 21. mars 2006 20:45
Snæfell leiðir eftir fyrsta leikhluta Snæfell er yfir 17-12 gegn KR eftir fyrsta leikhluta í oddaleik liðanna í fyrstu umferð úrslitakeppni Iceland Express deildar karla í körfubolta. Leikurinn fer fram í DHL-höllinni og er sýndur í beinni útsendingu á Sýn Extra. Gestirnir hafa verið mun meira sannfærandi í öllum sínum aðgerðum og leiða verðskuldað, en KR hefur aðeins skorað eina körfu utan af velli í leikhlutanum. Sport 21. mars 2006 20:14
KR - Snæfell í beinni á Sýn Extra Oddaleikur KR og Snæfells í fyrstu umferð úrslitakeppni Iceland Express deildar karla verður í beinni útsendingu á Sýn Extra klukkan 19:50 í kvöld. Liðin hafa til þessa unnið sitthvorn útileikinn og í kvöld verður leikið til þrautar í DHL-Höllinni. Sport 21. mars 2006 16:29
Skallagrímur í undanúrslit eftir framlengingu í Grindavík Skallagrímur varð í kvöld þriðja liðið til að tryggja sig í undanúrslit Iceland Express-deildar karla í körfubolta þegar liðið hafði betur í framlengingu gegn Grindavík, 73-77. Staðan að loknum venjulegum leiktíma var jöfn, 65-65 og því þurfti að framlengja í Grindavík. Sport 19. mars 2006 22:00
Njarðvík í undanúrslit - framlengt í Grindavík Njarðvík varð í kvöld annað liðið til að tryggja sig í undanúrslit Iceland Express deildarinnar í körfubolta eftir 2 stiga sigur á ÍR í Seljaskóla, 76-78. Leikur Skallagríms og Grindavíkur fer í framlengingu en lokatölur eftir venjulegan leiktíma í Grindavík urðu 65-65. Borgnesingar voru einu stigi yfir í hálfleik, 35-36. Sport 19. mars 2006 21:17
Keflavík í undanúrslit og KR tryggði sér oddaleik Keflavík varð í dag fyrst liða til að tryggja sig í undanúrslitin í úrslitakeppni karla í körfubolta þegar deildarmeistararnir unnu Fjölni 87-84. Í Stykkishólmi náði KR að tryggja sér oddaleik með því að leggja Snæfell 62-61 þar sem sigurkarfa KR kom þegar 2 sekúndur voru til leiksloka og var það 3 stiga karfa fráMelvin Scott sem réði úrslitum. Sport 18. mars 2006 17:54