Viðskipti innlent

Vextir lífeyrissjóða lækka einnig

Lægri vextir Íbúðalánsjóðs og viðskiptankanna verða til þess að lífeyrissjóðirnir lækka vexti til sinna sjóðsfélaga. Flestir lífeyrissjóðir landsins íhuga nú að lækka vexti á lánum til sjóðsfélaga og hafa sumir þeirra þegar ákveðið að lækka vexti niður í 4,3 prósent, svo sem Lífeyrissjóður sjómanna. Beðið er eftir hvað stærstu lífeyrissjóðir gera, svo sem Lífreyrissjóður starfsmanna ríkisins og Lífeyrissjóður Verslunarmanna, enda skipa sjóðsfélagar þúsundum. Haukur Hafsteinsson, forstjóri Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins, segir að vextir sjóðsins muni lækka fljótlega. Hann segir að fundur verði haldinn í september hjá stjórn sjóðsins. Þar verði tekin ákvörðun um breytingu á vöxtum á lánum til sjóðsfélaga. Hann segir vexti á þessum lánum endurskoðaða með þriggja mánaða millibili. Vextir á lánum sjóðsins fylgi vöxtum á lánum Íbúðalánasjóðs og það megi því gera ráð fyrir því að vextir lána sjóðsins verði lækkaðir á næstunni. Þá segir hann að vextir lækki þá sjálfkrafa einnig á eldri lánum.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×