Viðskipti innlent

Samson hagnaðist um 600 milljónir

Samson Holding, eignarhaldsfélag í eigu Björgólfsfeðga, hagnaðist um tæpar sex hundruð milljónir króna í viðskiptum með bréf í Kaldbaki í gær. Kaupfélag Eyfirðinga varð um leið af hagnaði sem nam sömu fjárhæð. Samkomulag tókst í gærkvöld um sameiningu Burðaráss og Kaldbaks og eru skiptihlutföllin um fimm á móti einum, Burðarási í vil. Úr verður eitt öflugasta fjárfestingarfélag landsins sem metið er á hátt í níutíu milljarða í dag eftir mikla hækkun bréfa í Kaldbaki í Kauphöllinni. Kaupfélag Eyfirðinga, sem í dag kallar sig byggðastefnufélag á Norðurlandi, seldi í gærmorgun 27 prósenta hlut í Kaldbaki. Samson Holding eignarhaldsfélag Björgólfsfeðga keypti hlut KEA á genginu 7,9. Þegar samningar svo nást um sexleytið um sameiningu við Burðarás fá aðrir hluthafar í reynd sextán prósenta hærra gengi, eða 9,16. Það eru tæpar sex hundruð milljónir króna sem hægt er að segja að Samson græði en KEA tapi.  Andri Teitsson, framkvæmdastjóri KEA, segir fyrirtækið ekki hafa orðið af sex hundruð milljónum með sölunni því KEA hafi haft allt önnur markmið viðskiptnum. Gengi Kaldbaks hækkaði um tæp sautján prósent í Kauphöllinni í dag og græða því allir hluthafar vel - það er að segja, nema maðurinn sem seldi fyrir átta milljónir í gær eftir að Kauphöllin opnaði fyrir viðskipti á ný þótt óvissa væri enn um hvort samningar myndu nást.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×