Viðskipti innlent

Svikamylla í Skagafirði

Yfirtaka Kaupfélags Skagfirðinga, Sparisjóðs Ólafsfjarðar og Sparisjóðs Mýrasýslu á Sparisjóði Hólahrepps á Sauðárkróki átti sér stað á fundi stofnfjáreigenda í Safnahúsinu á Sauðárkróki í gær. Á fundinum var samþykkt stofnfjáraukning úr 22 milljónum króna í 88 milljónir auk þess sem nafni Sparisjóðs Hólahrepps var breytt í Sparisjóð Skagfirðinga og ný stjórn kosin. Í henni sitja: Sigurjón Rafnsson, aðstoðarkaupfélagsstjóri KS, Jón Eðvald Friðriksson, framkvæmdastjóri FISK, Magnús Brandsson, sparisjóðsstjóri í Ólafsfirði, Gísli Kjartansson, sparisjóðsstjóri Sparisjóðs Mýrasýslu, og Sverrir Magnússon bóndi sem telst vera fulltrúi minnihlutans. "Athygli vekur að Kaupfélag Skagfirðinga og sparisjóðirnir tveir bjóða fram sameiginlegan lista. Þetta er því samstarf tveggja peningavelda," sagði Valgeir Bjarnason, aðstoðarskólameistari Hólaskóla og fyrrverandi stjórnarmaður, en hann beitti sér gegn yfirtökunni á fundinum. Boðað hafði verið til fundar stofnfjáreigendanna fyrir nokkru en á stjórnarfundi í sparisjóðnum á þriðjudaginn kom skyndilega í ljós að Kaupfélag Skagfirðinga, sem átti 40 prósent stofnfjár en mátti bara fara með 5 prósenta atkvæðisrétt, hafði selt stjórnendum Kaupfélagsins og Fiskiðjunnar og eiginkonum þeirra stærstan hluta síns stofnfjár auk þess sem Sparisjóði Mýrasýslu og Sparisjóði Ólafsfjarðar var seldur 5 prósenta hlutur hvorum. Þetta var gert til að geta nýtt atkvæðisréttinn til hins ítrasta í gær, að mati Valgeirs. "Okkur finnst gerningurinn fullkomnaður með þessu. Það er ákveðin svikamylla í gangi sem við erum ósátt við. Við munum reyna að hnekkja þessu því að við teljum að þetta standist tæplega lög og munum skoða framhaldið með okkar lögmanni. Þetta gengur ekki upp í mínum huga. Í það minnsta er þetta siðferðislega rangt, hvað sem öllum lögum líður," sagði hann.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×