Viðskipti innlent

Lánin verða að hækka

Fasteignasalar búast við að útlánaþak Íbúðalánasjóðs hækki í minnst 13 milljónir króna um næstu áramót um leið og nýtt lánshlutfall upp á 90 prósent tekur gildi. Ólafur Blöndal, varaformaður Félags fasteignasala, býst allt eins við því að þakið hækki enn meira. Fyrir 13 milljónir króna er aðeins hægt að kaupa fjögurra til fimm herbergja blokkaríbúð sem myndi þá kosta um 14,5 milljónir króna miðað við 90 prósenta lán. "Það hefur ekkert að segja fyrir Íbúðalánasjóð í samkeppni við bankana að hækka í 13 milljónir. Þeir verða að hækka útlánaþakið miklu meira. Ég sé fram á að þeir verði að fara í lágmark 18 milljónir til að svara því sem bankarnir eru að gera," segir Ólafur. "Það háir sölu stærri eigna að vera með útlánaþakið ekki hærra en þetta. Þetta hefur engan veginn fylgt vísitölunni undanfarin tíu ár þannig að þeir þurfa að stíga skrefið til fulls til að vera samkeppnishæfir. Það er mikil eftirspurn eftir nýbyggingum og stærri sérbýli seljast sem aldrei fyrr."





Fleiri fréttir

Sjá meira


×