Viðskipti innlent

Neitar meintu samráði

Framkvæmdastjóri Samtaka banka og verðbréfafyrirtækja vísar því á bug að viðskiptabankarnir hafi skipulagt samráð um hámark íbúðalána. Hann segir óeðlilegt að líkja starfi innan samtakanna við ólöglegt samráð olíufélaganna. Í frétt Stöðvar 2 í gær var greint frá samráði viðskiptabankanna um að hámarkslán til íbúðakaupa mætti ekki fara yfir 12 milljónir króna og að þeir hefðu einnig sammælst um gjaldskrá. Samtök banka og verðbréfafyrirtækja sendu félagsmálaráðherra bréf í fyrra þar sem kynntar voru tillögur um útfærslu á húsnæðislánum en sú hugmynd var sett fram að hámarkslán til íbúðarkaupenda yrði hækkað um eina milljón króna á ári frá núverandi hámörkum og endaði í 11-12 milljónum króna í árslok 2007. Guðjón Rúnarsson, framkvæmdastjóri Samtaka banka og verðbréfafyrirtækja, segir tillögurnar svar við beiðni félagsmálaráðherra, sem hefði unnið að útfærslu á tillögum á 90% lánum og óskað eftir samráði við bankanna. Hann segir tillögurnar hafa verið sendar stjórnvöldum og öllum fjölmiðlum á þeim tíma og því sé ekkert nýtt í því máli. Spurður hvernig hann skýri muninn á upphæðunum sem nefndar eru í tillögunum og þeim sem bankarnir bjóði nú í lán, sem eru allt að 25 milljónir króna, segir Guðjón að tillögurnar hafi verið sniðnar að þeim veruleika sem þá hafi verið til staðar. Margt hafi breyst síðan. Lykilatriðið sé að sl. sumar hafi eitt aðildarfélag samtakanna gengið fram fyrir skjöldu og lækkað húsnæðislánavexti verulega og hinir bankarnir hafi ekki treyst sér til annars en að fylgja Guðjón telur óeðlilegt að líkja þessu við brotamál sem nú sé til rannsóknar hjá stjórnvöldum, og á þar við samráð olíufélaganna, því engin samlíking sé þarna á milli. 





Fleiri fréttir

Sjá meira


×