Viðskipti innlent

Ríkið kaupir Landsvirkjun

MYND/Vísir
Ríkið mun kaupa hlut Reykjavíkurborgar og Akureyrarbæjar í Landsvirkjun en bæjarfélögin eiga helming í félaginu á móti ríkinu. Frá því var greint á blaðamannafundi í Þjóðmenningarhúsinu fyrir stundu. Stefnt er að því að viðræðum um málið ljúki í september og að Landsvirkjun yfirtaki hluti hinna um áramót. Reykjavíkurborg á rúm 45 prósent í fyrirtækinu og Akureyrarbær tæp fimm prósent. Jafnframt þessu verður Orkubú Vestfjarða og Rafmagnsveitur ríkisins sameinaðar Landsvirkjun um áramót og stefnt er að því að breyta Landsvirkjun í hlutafélag árið 2008. Þá skapast möguleikar fyrir aðra fjárfesta að koma að Landsvirkjun eða jafnvel kaupa hana. Fjármálaráðherra, iðnaðarráðherra, borgarstjóri og bæjarstjórinn á Akureyri undirrita þetta samkomulag og greiðir ríkið fyrir helmingshlut í Landsvirkjun á löngum tíma og inn á lífeyrisskuldbindingar beggja sveitarfélaganna. Endanlegt verð er ekki ákveðið. Eigið fé Landsvirkjunar er liðlega 40 milljarðar króna en verðmæti virkjana félagsins er margföld sú upphæð. Það var Þórólfur Árnason, fyrrverandi borgarstjóri, sem hóf þá viðræðulotu sem leitt hefur til þessarar niðurstöðu. Var það meðal annars í ljósi nýrra raforkulaga sem leiddu af sér að Reykjavíkurborg var farin að keppa við sjálfa sig um raforkusölu til stóriðju í gegnum Landsvirkjun annars vegar og Orkuveitu Reykjavíkur hins vegar.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×