Innlent

2 ára fangelsi fyrir bílaíkveikju

Rúmlega tvítugur karlmaður var dæmdur í tveggja ára fangelsi af Héraðsdómi Reykjaness í dag fyrir að hafa hellt bensíni yfir og kveikt í bifreiðum á bílastæði fjölbýlishúss í Hafnarfirði í fyrra, með þeim afleiðingum að eldur barst í gluggakarma á jarðhæð hússins og stofnaði maðurinn með því í hættu lífi níu sofandi íbúa hússins. Maðurinn var einnig fundin sekur um brot gegn vopnalögum með því að hafa í vörslum sínum hníf með 15 sentímetra löngu blaði þegar lögregla hafði afskipti af honum. Maðurinn játaði skýlaust brot sín fyrir dómi. Hann sagði að kvöldið sem þetta gerðist hefði hann verið reiður og í miklu uppnámi eftir erfiðleika í sambandi við kærustu sína, og verið mjög ölvaður. Maðurinn hefur áður hlotið fimm dóma fyrir brot gegn almennum hegningarlögum og lögum um ávana- og fíkniefni. Héraðsdómur taldi hæfilega refsingu tveggja ára fangelsisvist og til frádráttar refsingu kemur tólf daga gæsluvarðhald. Vegna fyrri brota mannsins þótti ekki koma til greina að skilorðsbinda dóminn. Manninum var einnig gert að greiða rúma eina milljón króna í skaðabætur.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×