Viðskipti innlent

50 milljarða kortaviðskipti

Seðlabankinn segir að gríðarleg eyðsla landsmanna að undanförnu geti leitt til þenslu í hagkerfinu sem ástæða sé til að hafa áhyggjur af. Landsmenn hafa sjaldan eytt eins miklu og á fyrstu þremur mánuðum ársins þegar þeir notuðu kreditkort fyrir tæplega fimmtíu milljarða króna. Samkvæmt upplýsingum sem Seðlabankinn hefur birt og greint er frá í Morgunkorni Íslandsbanka jókst heildarvelta í kreditkortaviðskiptum landsmanna um 14,5% á fyrsta ársfjórðungi ársins, miðað við sama tíma í fyrra, og nam tæplega 50 milljörðum króna. Meðal annars hefur orðið mikil vöxtur í kreditkortaveltu erlendis. Mikill munur í veltuaukningu erlendis og innanlands er sagður endurspegla viðbrögð neytenda við gengishækkun krónunnar að undanförnu en gengi krónunnar var tæplega 9% hærra á fyrsta ársfjórðungi þessa árs, samanborið við sama tíma í fyrra. Jón Sigurðsson, bankastjóri Seðlabankans, segir eyðslu landsmanna í samræmi við það sem bankinn hafi margoft bent á. Þetta séu merki um töluverða aukningu einkaneyslu sem skýrir vaxandi viðskiptahalla, frekar en stórframkvæmdir, að sögn Jóns.  Aðspurður hvaða áhrif þessi mikla eyðsla kunni að hafa á efnahagslífið segir Jón að á einhverjum tímapunkti verði þetta of mikil áreynsla fyrir gjaldmiðilinn og orsaki sveiflu á genginu. Á sama hátt megi gera ráð fyrir að til komi þensla á vinnu- og launamarkaði með þekktri verðbólguþróun.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×