Viðskipti innlent

Tæplega 40 hafa óskað eftir gögnum

Hátt í fjörutíu aðilar hafa óskað eftir því við einkavæðingarnefnd að fá trúnaðargögn um Símann þar sem þeir séu áhugasamir um kaup á fyrirtækinu. Mjög sterkir innlendir og erlendir aðilar eru í þeim hópi.  Að sögn Jóns Sveinssonar, formanns nefndarinnar, fá þessir aðilar ákveðin gögn gegn trúnaði um að dreifa þeim ekki en á þessu stigi sé ómögulegt að ráða í hvort eða hvernig einhverjir úr þessum hóp mynda samstarf um að gera óformlegt tilboð.  Tilboðin eiga að berast fyrir 17. maí. Þegar þau hafa borist fá tilboðsgjafar enn ítarlegri gögn um rekstur Símans til að geta gert bindandi lokatilboð. Þá fyrst sést hversu margir og hverjir standa að lokatilboðum og hvernig hópar eða samstarf hefur myndast með þeim sem nú hafa leitað upplýsinga. Stefnt er að því að ganga frá endanlegum sölusamningi í júlí en að sögn Jóns gæti það dregist eitthvað ef mörg lokatilboð berast því mikil vinna er að fara yfir þau og meta. Hann segir að mjög sterkir aðilar hafi óskað eftir frumgögnunum, bæði innlendir og erlendir, en nefndin gefi þá ekki upp.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×