Viðskipti innlent

Fasteignamarkaður sé að róast

Fasteignaverð er ekki að lækka og framboð á fasteignum ekki að aukast. Þetta segir Ólafur B. Blöndal, framkvæmdastjóri Fasteign.is. Hann segir þó markaðinn vera að róast og að hækkanir séu að öllum líkindum yfirstaðnar. Ólafur segir eignir staldra lengur við en þær gerðu fyrir tveimur mánuðum þegar eignir fóru jafnvel sama dag út af markaði og þær komu inn. En hann segir ekkert benda til þess að markaðurinn sé á niðurleið. Ástandið sé þannig á markaðnum núna, sem hann telji nokkuð jákvætt, að fólk sé farið að staldra við og velta fyrir sér meira lánamöguleikum. Það sé ekki sami útlánahraði og var í áður og hann telji að það komi til af því að bankarnir séu ekki jafnútlánaglaðir. Ólafur segir að þó svo að verð hafi náð ákveðnu hámarki þurfi fólk ekki að kvíða lækkunum. Engin ástæða sé til að vera með upphlaup í þeim efnum því þeir sem hafi starfað við fasteignaviðskipti á Íslandi séu vanir því að þetta gerist. Ólafur segir að alltaf vanti fleiri fasteignir á markað, nóg sé eftirspurnin eftir húsnæði. Hugsanlega séu Íslendingar að ganga inn í tímabil sem sé nokkuð eðlilegt á fasteignamarkaði eins og fasteignasalar þekki það, á milli þess sem spenna verði.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×