Viðskipti innlent

Föt 50% dýrari en í nágrannaríkjum

Fatnaður og skór eru tæplega fimmtíu prósent dýrari hér á landi en í öðrum Evrópuríkjum. Þetta kemur fram í tölum sem hagstofa Evrópusambandsins birti nýverið.  Í nágrannalöndum okkar, Svíþjóð, Finnlandi og Danmörku, voru þessar vörur um 20 prósentum dýrari en að jafnaði á EES-svæðinu og í Noregi voru þær 34 prósentum dýrari. Upplýsingarnar byggjast á verðkönnun sem gerð var árið 2003 á 285 vörum í 31 Evrópulandi. Af Evrópusambandsríkjunum 25 var verðlagið hæst í Svíþjóð eða 14 prósentum yfir meðaltali en þar á eftir komu Ítalía, Finnland og Danmörk. Annars er verð á fatnaði og skóm nokkuð svipað í Evrópusambandinu. Sigurður Jónsson, framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu, segir þessar niðurstöður koma á óvart þar sem markaðurinn hafi orðið samkeppnishæfari á síðustu árum. Hann segir verðkannanir ónákvæm vísindi og margar breytur þurfi að skoða. Hann segir vöruverð hafa batnað til muna á undanförnum árum og það hafi Íslendingar fundið enda hafi verslunarferðum þeirra til útlanda fækkað mjög. Um er að ræða hluta af verkefni þar sem verð á ýmsum vörum er borið saman í Evrópusambandsríkjunum 25, þremur ríkjum sem sótt hafa um aðild að ESB og þremur EFTA-ríkjum: Íslandi, Noregi og Sviss. Samkvæmt könnuninni kostaði fatnaður og skór 2,7 sinnum meira á Íslandi en í Rúmeníu, einu af umsóknarlöndunum, þar sem þessar vörur voru ódýrastar.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×