Viðskipti innlent

Ekki inn á Bandaríkjamarkað í vor

Skandinavíska flugfélagið Sterling, sem er í eigu þeirra Pálma Haraldssonar og Jóhannesar Kristinssonar, er ekki á leið inn á Bandaríkjamarkað í vor eins og kemur fram í dönskum fjölmiðlum í dag. Þá er félagið ekki að ráða til sín 400 manns eins og jafnframt hefur komið fram í fjölmiðlum þar í landi. Sölustjóri ferðaskrifstofunnar Star Tour segir í dönskum fjölmiðlum í dag að Danir muni í þúsundavís ferðast til Bandaríkjanna með Sterling í stað þess að halda austur eins og þeir hafa gert hingað til í miklu magni þegar flugfélagið hefur flug þangað í vor. Þá segir í blaðinu að hægt verði að komast aðra leiðina frá aðeins tíu þúsund krónum íslenskra. Almar Örn Hilmarsson, framkvæmdastjóri Sterling, segir danska fjölmiðla fara með rangt mál. Sterling hafi ætlað að hefja flug til Bandaríkjanna í haust en að ákveðið hafi verið fyrir nokkru að setja málið á bið og engin endanleg ákvörðun sé komin í málið. Almar segir danska fjölmiðla hafa farið með margar rangar fréttir í loftið um félagið að undanförnu, meðal annars að félagið sé að ráða til sín 400 nýja starfsmenn, en það er ekki rétt. Aðspurður um flug til Bandaríkjanna segir hann of snemmt að segja til um hvort af því verði eða hvort millilent yrði á Íslandi ef flogið yrði þangað. Hann segir þó ekkert útilokað og verið sé að funda um þessi mál um þessar mundir.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×